Viðskipti innlent

Reikna með hóflegum hækkunum á íbúðaverði í ár

Íbúðamarkaðurinn hélt áfram að braggast á síðasta ári en heldur hefur hægt á aukningu í veltu og verðhækkunum miðað við árið á undan.

Á landinu öllu jókst veltan um tæp 20% og hækkaði íbúðaverð á landinu öllu um 4,6% að nafnvirði. Íbúðaverð hækkaði hinsvegar um 8% að nafnvirði árið 2011 og þá jókst veltan um 45%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir einnig að búast megi við hóflegum hækkunum á íbúðamarkaði næstu misserin.

„Þessi þróun þarf svo sem ekki að koma á óvart þegar haft er í huga að íbúðamarkaðurinn var á árinu 2011 að koma upp úr djúpri lægð í kjölfar hrunsins og var viðsnúningurinn sem hófst á íbúðamarkaði í lok árs 2010 nokkuð hraður," segir í Morgunkorninu.

„Nú hefur hinsvegar hægt á þessu ferli og búast má við hóflegum verðhækkunum á íbúðamarkaði á næstu misserum. Við teljum einnig að hér séu að verki sömu kraftar og verið hafa að draga úr vexti einkaneyslu undanfarið þ.e. hægari vöxtur kaupmáttar launa en sterkt samhengi hefur verið í gegnum tíðina á milli kaupmáttar og íbúðaverðs."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×