Viðskipti innlent

Lýsing skoðar réttarstöðu í kjölfar álits frá ESA

Dómsmál Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hyggst skoða réttarstöðu sína vandlega í kjölfar álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þess efnis að íslenskum stjórnvöldum hafi verið óheimilt að banna veitingu gengistryggðra lána í krónum. Stóru bankarnir hafa enga ákvörðun tekið um viðbrögð.

Fréttablaðið greindi frá því á laugardag að álit ESA, sem gefið var út á miðvikudag, vekti upp spurningar um bótaábyrgð ríkisins gagnvart innlendum fjármálastofnunum. Hafði Fréttablaðið þá eftir Tómasi Hrafni Sveinssyni héraðsdómslögmanni að svo gæti farið að bankar sem orðið hafa fyrir tapi vegna endurreikninga gengistryggðra lána í krónum færu að skoða rétt sinn.

Innlendar fjármálastofnanir töpuðu miklum fjárhæðum við gengislánadóma Hæstaréttar. Má nefna sem dæmi að Viðskiptablaðið mat það sem svo í janúar 2011 að dómarnir hefðu kostað Lýsingu 20,4 milljarða króna. Þór Jónsson, talsmaður Lýsingar, segir að fyrirtækið hafi kynnt sér álit ESA eftir að það var birt á miðvikudag. „Niðurstaða þess er í takti við það sem Lýsing taldi og það gefur augaleið að Lýsing skoðar núna stöðu sína með hliðsjón af þessari niðurstöðu ESA,“ segir Þór.

Fréttablaðið sendi sömuleiðis fyrirspurnir á stóru bankana þrjá. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka og Arion banka hafa bankarnir enga ákvörðun tekið um hvort brugðist verði við álitinu. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að bankinn hafi fylgst með málinu en bætir við að því sé ekki lokið, enda þarf ríkið að svara ESA og svo getur málið farið fyrir EFTA-dómstólinn bregðist stjórnvöld ekki við. Þá segir Kristján að Landsbankinn muni einfaldlega fylgjast áfram með málinu og skoða það. - mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×