Viðskipti innlent

Beinn kostnaður 170 milljarðar króna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hús Í Vísbendingu er sagt ólíklegt að velta megi öllum niðurfærslukostnaði á erlenda vogunarsjóði.
Hús Í Vísbendingu er sagt ólíklegt að velta megi öllum niðurfærslukostnaði á erlenda vogunarsjóði. Fréttablaðið/GVA
Kostnaður við fimmtungsniðurfærslu húsnæðislána myndi nema 240 milljörðum króna, eða sem samsvarar fjörutíu prósentum af ríkisútgjöldum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt efnahagsritsins Vísbendingar.

„Með þeirri fjárhæð mætti til dæmis reka Landspítalann í sex ár eða helminga skuld ríkisins vegna lífeyrisskuldbindinga,“ er bent á í úttektinni. Fram kemur að rúmur helmingur kostnaðarins, eða 56 prósent, félli á Íbúðalánasjóð. Sú upphæð næmi þá 134,4 milljörðum króna. Beinn kostnaður hins opinbera af tuttugu prósenta niðurfærslu næmi 170 milljörðum króna.

Yfirskrift úttektarinnar er „Hvað kosta kosningaloforðin?“ og bent á að stjórnmálaflokkar sem boðað hafa niðurfellingu verðtryggðra lána hafi ekki skýrt hvernig færa ætti lánin niður. Það gæti hins vegar annaðhvort orðið með lagaboði og eða almennu samkomulagi.

„Ef lán verða færð niður með lagaboði er hugsanlegt að lánafyrirtæki geri kröfu á ríkið um greiðslu kostnaðar af niðurfærslunni. Hugsanlegt er að jafnvel „hrægammar“ gætu átt rétt fyrir dómstólum,“ segir í úttekt Vísbendingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×