Viðskipti innlent

OR dregur sig út úr samstarfi um gerð Hrafnabjargavirkjunar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Haraldur Flosi Tryggvason
Haraldur Flosi Tryggvason
Orkuveita Reykjavíkur (OR) dregur sig út úr samstarfi um Hrafnabjargavirkjun. Á stjórnarfundi fyrir helgi var samþykkt að heimila forstjóra Orkuveitunnar að ganga til samninga við meðeigendur OR í Hrafnabjargavirkjun hf. með það að markmiði að þeir eignist hlut Orkuveitunnar.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, segir verkefnin undanfarið hafa snúið að því að styrkja fjárhag Orkuveitunnar og minnka áhættu.

„Það var metið sem svo að virkjunaráform þarna fyrir norðan féllu ekki vel að þeirri vinnu, að fengnu áliti stjórnenda um að ákvörðunin fæli ekki í sér áhættu varðandi framtíðarorkuöflun,“ segir hann.

Kjartan Magnússon, fulltrúi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR, sagði í bókun í fundargerð stjórnar OR að óráðlegt væri að gefa frá sér þátttöku í verkefninu og fækka þar með orkuöflunarkostum fyrirtækisins til framtíðar. Þá gerði hann athugasemd við fyrirhugað vinnulag við sölu á hlut OR í Hrafnabjörgum. Eðlilegast væri að hámarka söluverð hlutarins í gagnsæju söluferli.

Haraldur Flosi bendir á að enn sé ekkert fast í hendi varðandi Hrafnabjargavirkjun eða arð af því verkefni. „Það sem ýtti á þessa ákvörðun nú er að fyrir liggur vilji meðeigenda OR í félaginu að fá rannsóknaleyfi og þá þarf að fara að leggja fé í verkefnið.“ Verðmæti félagsins nú nemi hins vegar bara um tíu milljónum króna sem sé upplausnarvirði þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×