Viðskipti innlent

Stjórn Eirar leitar nauðasamninga

JHH skrifar
Stjórn Hjúkrunarheimilisins Eirar þarf að leita eftir formlegum nauðasamningum til lausnar á fjárhagsvanda stofnunarinnar.

Í tilkynningu sem stjórn Eirar sendi frá sér í kvöld kemur fram að stjórnin hafi leitað eftir frjálsum samningum við íbúðarréttarhafa um breytt uppgjörsform á íbúðarréttum. Forsenda þess að hægt hefði verið að ljúka málum með því væri að allir myndu samþykkja samninginn. Nú liggur aftur á móti fyrir að 96% samþykktu samninginn en 4% höfnuðu honum eða tóku ekki afstöðu.

Í tilkynningunni segir að í  formlegum nauðasamningum þá þurfi samþykki 60% aðila og 60% af kröfufjárhæð til að ná samningi í gegn, sé við það miðað að ekkert verði afskrifað af kröfunum. Í þessu ferli þurfi íbúðarréttarhafar meðal annars að lýsa kröfum sínum með formlegum hætti og greiða atkvæði þegar nauðasamningurinn verður borinn upp til atkvæða. Lögmenn Eirar muni aðstoða íbúðarréttarhafa í þessu efni, sé þess óskað, íbúðarréttarhöfum að kostnaðarlausu.

Þá er tekið fram að engin röskun verði á þjónustu á meðan þetta ferli gengur yfir og reynt verði að aðstoða og upplýsa íbúðarrétthafa eins og kostur er.

Í því sambandi er íbúum boðið á fund, fimmtudaginn 11. apríl n.k., sem hér greinir: 

Eirhamrar kl. 13:30 í aðalandyri Eirhamra, Hlaðhömrum 2.

Eirborgir kl. 15:00 í matsal Eirborga, Fróðengi 3.

Eirarhús kl. 16:30 í matsal Eirar, Hlíðarhúsum 7.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×