Innlent

Gjaldskrá Íslandspósts hækkar um áramótin

Brjánn Jónasson skrifar
Póstmagn minnkaði um sex prósent á árinu 2013, og er gert ráð fyrir fimm prósenta samdrætti á næsta ári. Fréttablaðið/Anton
Póstmagn minnkaði um sex prósent á árinu 2013, og er gert ráð fyrir fimm prósenta samdrætti á næsta ári. Fréttablaðið/Anton
Gjaldskrá Íslandspósts mun hækka um áramótin samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Meðaltalshækkunin er um níu prósent.

Frímerki á bréf í A-pósti hækka úr 120 í 130 krónur, um 8,3 prósent. Bréf í B-pósti kosta nú 103 krónur en hækka í 112 krónur, um 6,8 prósent.

Íslandspóstur, sem hefur einkarétt á póstsendingum af þessu tagi, vildi hækka gjaldskrána um 21 til 32 prósent. Í beiðni fyrirtækisins var óskað eftir því að verð á A-pósti hækkaði í 135 krónur, og verð á B-pósti í 115 krónur, sem er 12,5 og 11,7 prósenta hækkun.

Vísaði fyrirtækið meðal annars til þess að um sex prósenta samdráttur hafi orðið í póstmagni á árinu 2013, og spáð fimm prósenta samdrætti á næsta ári.

Póst- og fjarskiptastofnun tók ekki undir forsendur Íslandspósts nema að hluta og heimilaði mun minni hækkun en farið var fram á.

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að póstþjónusta Íslandspósts sé sú næst ódýrasta á Norðurlöndunum, sé miðað við verð á A- og B-pósti. Aðeins í Svíþjóð er ódýrara að senda póst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×