Jólaundirbúningur Berglindar Pétursdóttir hefur ekki gengið stóráfallalaust fyrir sig.
„Bíllinn minn er ónýtur, þannig að við komumst ekki langt að kaupa jólagjafir né jólagardínur. Jólagjafirnar í ár verða eimaðar af kærastanum mínum, heklaðar af mér, eða skapaðar af Kára syni mínum, 3 ára, en hann hefur þegar sýnt mikla listræna hæfileika, þrátt fyrir að vera ungur að árum,“ segir Berglind Pétursdóttir, textahöfundur, dansari og GIF-drottning.
Berglind fór á Jólagesti Björgvins um síðustu helgi, en hún hafði hlakkað mikið til þeirra.
„Bíllinn gaf upp öndina á bílstæðinu á Jólagestunum, ég held hann hafi verið leiður að fá ekki að koma með inn, hann er þar ennþá,“ segir Berglind. „Ég óska hér með eftir bíl í jólagjöf.“
En Berglind er ekki af baki dottin.
„Það er mikil jólastemmning í vinnunni hjá mér. Við erum nýbúin að halda jólapartý með Bahama-þema þar sem ég gæddi mér á jólalegum ananas og vann sparibauk í jólagjafaleik,” segir Berglind og segist þrátt fyrir allt, vera mikið jólabarn.
„Ég fór til mömmu og pabba að baka smákökur því þau eiga sprautulakkað eldhús en eldhúsið mitt er í smærri kantinum. Ég skildi samt kökurnar eftir hjá þeim, því að ég er engin hemja þegar kemur að smákökum og þarf að halda mér í formi útaf ferli mínum sem dansari.“ segir Berglind.
Óskar eftir nýjum bíl í jólagjöf
