Viðskipti innlent

Útlánastafli bankanna hefur stækkað á haustdögum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Um nokkurt skeið hefur verið talað um ládeyðu í íslensku afhafnalífi og fátt um ný verkefni.
Um nokkurt skeið hefur verið talað um ládeyðu í íslensku afhafnalífi og fátt um ný verkefni. Fréttablaðið/Sigurður Jökull
Heildarstafli útlána fjármálastofnana hér innanlands hefur stækkað um meira en 30 milljarða frá því í haust, miðað við meðalgildi frá því í ársbyrjun 2012.

Verðmæti útlána fjármálastofnana landsins hefur í mánuði hverjum frá í ársbyrjun 2012 til sumarloka á þessu ári verið nálægt 1.800 milljörðum, stundum aðeins yfir og stundum undir. Meðaltalið yfir tímabilið í hverjum mánuði er rúmir 1.804 milljarðar.

Í ágúst á þessu ári tosast upphæðin svo í 1.815,7 milljarða. Hún hækkar enn í september í 1.829,8 milljarða og í tölum sem Seðlabankinn birti í byrjun vikunnar kemur fram að virði útlána hafi í október verið 1.834,8 milljarðar króna.

Breytingin frá því í júlí og til októberloka nemur 1,8 prósentum. Mundurinn á meðalgildinu frá ársbyrjun 2012 til sumarloka í ár er 1,7 prósent.

Sérfræðingar greiningardeilda bankanna vilja þó stíga varlega til jarðar þegar kemur að túlkun talnanna og segja að óvarlegt væri að draga þá ályktun að tölurnar endurspegli auknar lántökur og þar af leiðandi aukin umsvif í efnahagslífinu.

Lánasöfnin sem stóru viðskiptabankarnir tóku yfir frá gömlu bönkunum voru færð niður við tilfærsluna og hafa síðan sætt stöðugu endurmati. Þó verði að hafa í huga að áhrifin af endurmati lánasafna gömlu bankanna hafi farið minnkandi eftir því sem frá líður hruni.

Í tölum þeim sem Seðlabankinn birti á mánudag er raunar tekið fram að breytingarnar geti jafnt stafað af endurmati á virði lána eða af raunverulegum lánahreyfingum.

Í Peningamálum, þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var við síðustu vaxtaákvörðun sjötta þessa mánaðar, er engu að síður bent á að fyrstu níu mánuði ársins hafi útlánastofn innlánsstofnana til heimila aukist um 2,0 prósent og um 3,3 prósent milli ára á þriðja fjórðungi ársins.

„Aukningin er að stærstum hluta til komin vegna aukningar í stofni óverðtryggðra lána en á móti hefur stofn gengisbundinna lána dregist saman.“ Þetta segir Seðlabankinn endurspegla að hluta til endurfjármögnun lána og endurútreikning gengisbundinna lána sem dæmd hafi verið ólögleg.

Þá hóf bankinn á miðju þessu ári að safna nákvæmari upplýsingum um ný útlán til heimila og fyrirtækja. Samkvæmt þeim hafi ný útlán stóru viðskiptabankanna þriggja til heimla vaxið á árinu og námu um 38 milljörðum króna á fyrstu þremur fjórðungum ársins.

„Á sama tíma voru hrein ný útlán Íbúðalánasjóðs hins vegar neikvæð um 4,4 milljarða króna,“ segir í Peningamálum.

Stærstur hluti útlána viðskiptabankanna var óverðtryggður, 27,1 milljarður eða 71,3 prósent nýrra lána á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×