Viðskipti innlent

Borgin hyggst setja 170 milljónir í endurnýjun tölvubúnaðar

Þorgils Jónsson skrifar
Reykjavíkurborg mun setja stóraukið fjármagn í að endurnýja tölvur og tækjabúnað á næsta ári, ef frumvarp til fjárhagsáætlun gengur eftir.
Reykjavíkurborg mun setja stóraukið fjármagn í að endurnýja tölvur og tækjabúnað á næsta ári, ef frumvarp til fjárhagsáætlun gengur eftir.
Fjárfesting til endurnýjunar tölvubúnaðar í skólum og frístundamiðstöðvum í Reykjavík verður aukin mikið ef fjárhagsáætlun fyrir næsta ár nær fram að ganga. Þar er gert ráð fyrir því að verja 170 milljónum til kaupa á tækjabúnaði í stað 85 milljóna í ár auk þess sem kapp verður lagt á að bæta gagnatengingu í skólum.

Fréttablaðið fjallaði síðasta haust um áhyggjur skólastjórnenda af tölvukostinum sem hafði ekki verið endurnýjaður í fjögur ár og væri hamlandi í starfi skólanna.

„Staðan var orðin slæm eftir að búnaðurinn hafði ekki verið endurnýjaður í fjögur ár,“ segir Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, í samtali við Fréttablaðið og bætir við að þetta séu aðallega jákvæðar fréttir fyrir skólaþróun í stóra samhenginu.

„En nú stefnum við að því að í lok árs 2016 verði tækjamálin komin í gott horf og þá erum við að miða við að einungis þurfi eðlilega endurnýjun í framhaldinu.“

Oddný bætir því við að borgin hafi einnig tekið upp nýtt vinnulag við innkaup og endurnýjun tækja þar sem kaup eru sniðin að hverri stofnun út frá áherslum í skólastarfi hennar og fjármagni í stað þess að allar stofnanir séu settar undir sama hatt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×