Viðskipti innlent

Tíu þúsund króna seðill kostar 29 krónur

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Langstærstur hluti af verðmæti seðla og myntar í umferð er í formi 5.000 króna seðla.
Langstærstur hluti af verðmæti seðla og myntar í umferð er í formi 5.000 króna seðla. Fréttablaðið/GVA
Verðmæti tíu þúsund króna seðla í umferð er þegar orðin meiri en tvö þúsund króna seðla. 10.000 króna seðlarnir voru teknir voru í notkun 24. þessa mánaðar. Seðlabankinn ákvað árið 2011 að láta ekki prenta fleiri tvö þúsund króna seðla heldur láta þá fjara út.

Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn á vefnum Spyr.is um hvort borgi sig að búa til einnar og fimm krónu mynt og hvort sú mynt sé enn slegin.

Fram kemur í svarinu að enn séu til myntir að verðmæti ein króna og fimm krónur sem bíði þess að fara í umferð. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að hætta framleiðslu þeirra. Myntin sé þó tiltölulega dýr í framleiðslu miðað við nafnvirði hennar á meðan seðlar séu tiltölulega ódýrir í framleiðslu.

„Myntin endist hins vegar mjög lengi og langstærsti hluti þeirrar myntar sem er í umferð var framleiddur þegar innkaupsverð krónu peningsins og fimm krónu peningsins var undir nafnvirði þeirra.,“ segir í svari Seðlabankans.

Miðað við síðustu framleiðslu er sagt kosta nokkru meira að framleiða krónumynt en nafnverðið segir til um, en fimm krónu myntin komi út nokkurn veginn á sléttu.

„Það kostaði um 29 krónur að prenta hvern tíu þúsund króna seðil sem nú er verið að setja í umferð, og síðast þegar fimm þúsund króna seðill var prentaður kostaði það um 18 krónur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×