Lífið

Bjóða upp föt af Páli Óskari

Gabríel Þór Gíslason pg DAníel Ólafsson eru með óvenjulegt markmið í Meistaramánuði.
Gabríel Þór Gíslason pg DAníel Ólafsson eru með óvenjulegt markmið í Meistaramánuði. Fréttablaðið/Daníel
Þeir Gabríel Þór Gíslason og Daníel Ólafsson standa fyrir risatombólu í Vesturbænum á morgun til styrktar Kattholti. Tombólan verður haldin fyrir utan Melabúðina og þar ætla þeir að bjóða upp varning við allra hæfi.

„Eitt af markmiðum okkar í Meistaramánuði er að gera eitthvað eftirminnilegt sem við getum brosað yfir í ellinni,“ segir Gabríel.

„Ég hugsa að þetta verði eftirminnilegt!“ bætir hann við léttur í bragði.

„Viðtökurnar hafa verið vonum framar. Nú síðast bættist Páll Óskar í hóp þeirra sem ætla að gefa hluti til þess að selja til styrktar Kattholti,“ segir Gabríel jafnframt.

Ásamt Páli Óskari hafa þau Sigríður Klingenberg, Ingvar Kale, Ragga Ragnarsdóttir sundkona og Sölvi Tryggvason gefið eitthvað af eigum sínum til þess að selja á tombólunni þannig að það er ljóst að það verður úr nægu að velja.

„Það lætur enginn heilvita maður þetta fram hjá sér fara,“ segir Gabríel.

Auk tombólunnar verður létt dagskrá í boði.

„Friðrik Dór ætlar að troða upp eftir tombóluna með þekktum slögurum. Svo verðum við með ekta límónaði til sölu á 200 krónur,“ segir Gabríel.

„Við hvetjum ykkur eindregið til þess að leggja þessu starfi lið með því að vera dugleg að koma með dót til að selja og vera dugleg að kaupa!“ segir Gabríel að lokum.

Tombólan hefst klukkan 13.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.