Lífið

Tríóið Drangar ætlar að sigra heiminn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Nýja hljómsveitin Drangar gefur út plötu á næstunni.
Nýja hljómsveitin Drangar gefur út plötu á næstunni. MYND/JÓN ÞÓR ÞORLEIFSSON
„Hljómsveitin Drangar varð ekki til í bátnum Húna, það er alveg tæpt ár síðan við hófum leik í leyni,“ segir Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, um upphaf hljómsveitarinnar Drangar. Sveitina skipa, ásamt Mugison, Jónas Sigurðsson og Ómar Guðjónsson.

„Þegar Jónas og Ómar túruðu um landið síðastliðinn vetur hafði ég heyrt að þeir vildu taka „lókal“ fólk í eitthvað glens með sér á tónleikum. Þegar þeir komu til Flateyrar fékk ég að skemmta með þeim og það var svo svakalega gaman að við ákváðum að stofna hljómsveit,“ segir Örn Elías um sögu sveitarinnar.

Þeir félagar stofnuðu Facebook-síðu og voru komnir með rúm þúsund læk á stuttum tíma. Á síðunni birtu þeir fyrsta smáskífulagið af væntanlegri plötu en lagið heitir Bál. „Platan var að mestu tekin upp í Súðavík en textarnir voru að mestu ortir í Borgarfirði eystri. Fyrir austan var vinnudagurinn ansi hressandi. Við vöknuðum klukkan níu og fengum okkur að borða, unnum svo frá tíu til tvö en þá tók við göngutúr. Þá lögðum við okkur klukkan þrjú og fórum svo í sjósund og spa á milli fjögur og fimm, svo var bara unnið í textum allt kvöldið.“

Óhætt er að segja að sveitin sé afar frjó en á fyrstu tveimur æfingunum urðu til þrjátíu lög. Þá var skorið niður og einblínt á þrettán bestu lögin og verða þau á væntanlegri plötu.

Meðlimir sveitarinnar hrókera á milli hljóðfæra, á milli laga. „Við unnum þetta allt í sameiningu og var þetta virkilega skemmtilegt ferli,“ bætir Örn Elías við.

Drangar stefna á tónleikaferðalag með útgáfu plötunnar en hún kemur út á næstu vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.