Viðskipti innlent

Sérstökum var skipað að ákæra

Stígur Helgason skrifar
Erlendur krafðist fyrr í mánuðinum frávísunar ákærunnar á hendur honum.
Erlendur krafðist fyrr í mánuðinum frávísunar ákærunnar á hendur honum.
Sérstakur saksóknari felldi í mars niður mál á hendur Erlendi Magnússyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Glitni, fyrir innherjasvik. Fjármálaeftirlitið kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara, sem felldi ákvörðun sérstaks saksóknara úr gildi í júní og lagði fyrir hann að gefa út ákæru í málinu.

Þetta kemur fram í dómi sem birtist á vef Hæstaréttar í gær og varðar kyrrsetningu á eigum Erlendar.

Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur Erlendi og félaginu Fjársjóði ehf., í eigu Erlendar og konu hans, í byrjun ágúst. Þar er honum gefið að sök að hafa búið yfir innherjaupplýsingum um slæma lausafjárstöðu Glitnis þegar hann seldi bréf Fjársjóðs í bankanum fyrir tíu milljónir í mars 2008.

Ekki kemur fram í úrskurðinum á hvaða forsendum Fjármálaeftirlitið kærði ákvörðun sérstaks saksóknara síðastliðið vor, sem varð til þess að Ríkissaksóknari gerði embættinu að snúa ákvörðuninni.

Erlendur hefur hins vegar krafist þess að kyrrsetning á sex milljónum króna á reikningi Fjársjóðs ehf. yrði felld úr gildi.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri beiðni 3. september en í gær sneri Hæstiréttur þeirri niðurstöðu og felldi kyrrsetninguna úr gildi.

Ástæðan er sú að Hæstiréttur telur ekki sannað að sú hætta sé fyrir hendi að fjármununum verði komið undan þannig að ekkert fáist upp í upptökukröfuna, enda eigi félagið eignir upp á 169 milljónir króna og skuldi lítið sem ekkert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×