Lífið

Óléttur tónlistarmaður í Metro

Marín Manda Magnúsdóttir skrifar
Helgi Hrafn Jónsson og Tina Dickow búa á Íslandi og vinna að tónlist saman.
Helgi Hrafn Jónsson og Tina Dickow búa á Íslandi og vinna að tónlist saman.
„Já það er von á öðru barni. Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur og ákváðum við því að ég tæki það næsta. Við megum engan tíma missa,“ segir Helgi Hrafn Jónsson tónlistarmaður hlæjandi þegar blaðamaður spyr út í mynd sem birtist í danska fréttamiðlinum Metro Express fyrir stuttu.

Myndin er af Helga Hrafni og danskri konu hans, Tinu Dickow, og er Helgi með maga út í loftið. „Ástæða myndarinnar var sú að við þurftum að færa tónlistarferðalag okkar í Danmörku og urðum því að tilkynna komu barnsins.“ Fyrir á parið þrettán mánaða dreng.

Tine Dickow er þekkt nafn í tónlistarheiminum í Danmörku en hún er söngkona og lagasmiður og hefur selt yfir 300.000 plötur. Helgi Hrafn segir Tinu vera ánægða á Íslandi og að hún sé nú að læra íslensku. „Ég er íslenskur og mig langar að búa á Íslandi. Hún er bara svo góð við mig og langar að búa þar sem ég vil búa. Við erum reyndar töluvert í Danmörku því við ferðumst mikið.“

Parið samdi nýverið tónlist fyrir danska kvikmynd og fljótlega hefjast upptökur á nýjum plötum fyrir þau bæði en Helgi Hrafn segir sérstaklega gott að vinna að tónlistinni í friði hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.