Viðskipti innlent

Landinn eyðir meiru en í fyrra

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Landsmenn gerðu betur við sig í mat og drykk í júlí.
Landsmenn gerðu betur við sig í mat og drykk í júlí.
Landsmenn virðast vera örlítið viljugri við að taka upp veskið þetta árið samanborið við fyrra ár en samkvæmt nýjum tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar hefur sala á dýrum hlutum til heimilis aukist talsvert á milli ára.

Stöðug aukning hefur verið í sölu á stórum raftækjum og snjallsímum. Talið er að aukin sala snjallsíma stafi af aukinni þörf fólks til þess að nota síma í netsamskiptum.

Einnig má með sanni segja að velta á rúmum hafi aukist verulega en aukningin nemur um 18,7 prósentum að raunvirði miðað við sama tímabil í fyrra.

Í júlí hafa Íslendingar verið að gera betur við sig í mat og drykk en í sama mánuði í fyrra en litlar verðhækkanir voru bæði í mat og drykkjarvöru í júlí í ár.

Samkvæmt tölum Seðlabankans hefur kortavelta heimilanna aukist um 5,4 prósent í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og nam hún heilum 64,7 milljörðum króna. Greiðslukortavelta ferðamanna nam 15 milljörðum króna sem er 23 prósent af kortaveltu íslenskra heimila.

Samkvæmt Greiningu Íslandsbanka er vöxtur í kortaveltu útlendinga afar myndarlegur og var afgangur af svokölluðum kortaveltujöfnuði í júlí meiri en nokkru sinni fyrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×