Viðskipti innlent

Volkswagen í Danmörku kaupir helminginn í Heklu

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Kim Skovgaard Rasmussen, stjórnarformaður Heklu, Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, og Ulrik Schönemann, framkvæmdastjóri Volkswagen í Danmörku.
Kim Skovgaard Rasmussen, stjórnarformaður Heklu, Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, og Ulrik Schönemann, framkvæmdastjóri Volkswagen í Danmörku.
Danska hlutafélagið Semler, sem á og rekur Volkswagen-bifreiðar í Danmörku, hefur fest kaup á helmingshlut í Heklu hf. á Íslandi. Félagið notfærði sér fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands við kaupin, en virði hlutarins er talinn nema um 1,1 milljarði króna.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, mun áfram halda sínum helmingshlut í félaginu í gegnum eignarhaldsfélag sitt Riftún ehf. og segir hann söluna afar mikilvæga fyrir fyrirtækið. „Semler er gríðarlega öflugt fyrirtæki og það hefur mikla þýðingu fyrir okkur að vera komin með svona sterkt eignarhald,“ segir Friðbert og bætir við að hluthafaskiptin styrki einnig mannauð fyrirtækisins verulega. „Semler býr yfir mikilli reynslu og þekkingu sem á eftir að nýtast okkur vel til að efla starfsemi og rekstur fyrirtækisins.“

Friðbert segir að íslenskur bílamarkaður sé búinn að vera í mikilli lægð eftir hrunið árið 2008 og að batinn hafi farið mun hægar af stað en menn hafi reiknað með. Hann segist þó vera vongóður um framhaldið og telur kaup danska hlutafélagsins vera upphafið að endurreisninni. „Nýju eigendurnir þekkja þennan markað mjög vel og kaup félagsins sýna að þeir hafa trú á því að markaðurinn taki við sér bráðlega.“

Semler keypti hlut sinn í Heklu af athafnamanninum Franz Jezorski og fjölskyldu hans, en Franz og Friðbert hafa átt í töluverðum deilum frá því að þeir keyptu félagið saman árið 2011. „Við vorum ekki samstíga um starfsemi félagsins og því varð þetta niðurstaðan,“ útskýrir Friðbert, sem mun starfa áfram sem forstjóri félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×