Viðskipti innlent

Seldum gistinóttum fjölgar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Uppistaðan í söluaukningu gistinátta á hótelum er hjá erlendum ferðamönnum.
Uppistaðan í söluaukningu gistinátta á hótelum er hjá erlendum ferðamönnum.
Sextán prósenta aukning var milli ára á fjölda seldra gistinátta á hótelum landsins í maí. Þær voru 161.300 á þessu ári, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar.

„Gistinætur erlendra gesta voru um 79 prósent af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en það er fjölgun um 21 prósent frá sama tíma í fyrra. Jafnframt fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 14 prósent milli ára í maí,“ segir í umfjöllun Hagstofu Íslands. Talningin nær bara til hótela sem opin eru allt árið. 

„Á höfuðborgarsvæðinu voru 110.000 gistinætur á hótelum í maí sem er aukning um 8 prósent frá sama mánuði í fyrra. Utan höfuðborgarsvæðisins fjölgaði gistinóttum umtalsvert á milli ára. Á Suðurnesjum voru 8.000 gistinætur í maí en 4.800 í maí í fyrra. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum úr 5.000 í 8.100 og á Norðurlandi fjölgaði þeim um 48 prósent,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Mynd/Hagstofa Íslands
Þá kemur fram að á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða hafi gistinætur verið 6.500 í maí sem sé um 30 prósenta aukning frá fyrra ári. Gistinóttum á hótelum á Suðurlandi fjölgaði um 7 prósent en þar voru gistinætur um 15.200 nú en 14.100 í maí í fyrra.

„Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 22 prósent á fyrstu fimm mánuðum ársins. Gistinætur á hótelum fyrstu fimm mánuði ársins voru 693.400 en 569.500 á sama tíma í fyrra. Gistinóttum erlendra gesta hefur fjölgað um 24 prósent miðað við sama tíma í fyrra en gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 13 prósent.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×