Fastir pennar

Brókin sem breytti lífi mínu

Bergsteinn Sigurðsson skrifar

Fátt þykir mér hvimleiðara á þessari kringlu sem við búum á en að fara í Kringluna. Verst af öllu eru fatakaupin, því þótt vissulega sé gaman að vera nýskæddur er umstangið sem því fylgir yfirleitt til ama. Ég get að minnsta kosti ímyndað mér margt skemmtilegra og meira gefandi en að standa á sokkunum fyrir utan mátunarklefa í þriðja buxnaparinu í röð sem passar ekki alveg meðan tvítugur afgreiðslustrákur reynir að sannfæra mig í gegnum óminn af nýjasta Daft Punk-smellinum um að þessar séu sko akkúrat málið.

Á dögunum varð þó enn einn Kringluleiðangurinn ekki umflúinn. Ég ákvað að vitja gamals kunningja sem ég hafði ekki hitt lengi og kenndur er við skapara sinn, Levi Strauss. Ég fór með konunni minni sem leið lá í Levi‘s búðina, þar sem ekki var nokkurn mann að sjá. „Leyfið mér að geta, þið eruð að leita að „casual“ gallabuxum á hann,“ sagði rödd bak við afgreiðsluborðið. Upp reis myndarlegur maður, dökkur yfirlitum með stimamjúkt yfirbragð og rannsakandi augnaráð. Ég kinkaði kolli.

„Úr jakkanum,“ sagði hann, „og snúðu þér hring.“ Ég hlýddi án þess að segja orð. „Hmm… hvað erum við að vinna með,“ muldraði hann með fingur á vör meðan hann mældi mig út með augunum. „Ekki íhaldssamur en samt ekki of frjálslegur. Í hvaða sniði gengurðu yfirleitt? „Straight“, segirðu. Við þurfum tilbreytingu. Við förum yfir í „regular“,“ sagði hann. Án þess að spyrja hvaða númer ég notaði sneri hann sér við og spændi sig í gegnum heilan skáp fullum af buxum á ógnarhraða áður en hann dró fram buxur sem hann hristi svo small í skálmunum eins og svipu. „Voilà!“

Þetta voru nákvæmlega þess konar buxur sem ég hafði haft í huga og þær smellpössuðu. Nú þarf svo sem ekki ófreskan mann til að draga þá ályktun að karlmaður í gallabuxnabúð væri að leita sér að að gallabuxum en allt háttalag mannsins orkaði á mig eins og hann byggi yfir sjötta skilningarvitinu. Þegar hann rétti mér pokann með nýju buxunum, sem hvað sem verðmiðanum leið kostuðu lágmarksómak, bauð hann mig velkominn aftur. „Eftir hverjum á ég að spyrja?“ spurði ég. „Þeir kalla mig buxnahvíslarann.“






×