Handbolti

Tuða aðeins á íslensku við dómarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir vonast til að fá tækifæri með Kielce gegn Barcelona í dag.
Þórir vonast til að fá tækifæri með Kielce gegn Barcelona í dag. Fréttablaðið/Anton

Þórir Ólafsson og félagar hans í pólska liðinu Kielce hafa komið sterkir inn í Meistaradeild Evrópu þetta tímabilið. Liðið er eitt fjögurra sem keppir í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Köln en liðið mætir Barcelona í undanúrslitum í dag.

„Það er mikil stemning í bænum heima og allir hafa verið að bíða eftir þessari helgi,“ sagði Þórir sem varð tvöfaldur meistari með Kielce í vor en liðið sópaði erkifjendunum Wisla Plock, 3-0, í lokaúrslitum úrslitakeppninnar í pólsku deildinni.

„Þetta voru samt ekki auðveldir leikir og við vildum því einbeita okkur að þeim áður en við byrjuðum að hugsa um Meistaradeildina,“ bætir Þórir við. Hann fékk þó lítið að spila í úrslitarimmunni þar sem Króatinn Ivan Cupic er kominn aftur af stað eftir erfið meiðsli.

„Ég fékk ekki nema tólf mínútur í einum leiknum og það var allt og sumt. Þetta er auðvitað ákvörðun þjálfarans og ekkert annað fyrir mig að gera en að standa mig vel á æfingum og bíða eftir tækifærinu. Cupic er einn af betri hornamönnum heims,“ segir Þórir sem veit ekki hvort hann muni þurfa að dúsa á bekknum alla helgina í Köln.

„Það verður bara að koma í ljós. Það er þjálfarans að ákveða þetta. Ég verð bara að nýta þær mínútur sem ég fæ,“ segir hann. Fyrir fram reikna flestir með sigri Barcelona í dag og Þórir vonast til þess að þeir spænsku muni falla í þá gryfju að vanmeta andstæðinginn.

„Við vitum hvað við getum og ætlum að einbeita okkur að því. Barcelona er með mjög sterka vörn og tvo góða markverði. En við erum líka með ágæta markverði og getum líka spilað hörkuvörn. Við munum í það minnsta ekki gefa tommu eftir enda ekki víst að maður komist hingað á hverju ári. Þá er um að gera að njóta þess,“ segir hann. Þeir Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson munu dæma leikinn í dag.

„Þeir dæmdu hjá okkur leik gegn Medvedi í Rússlandi í fyrra og stóðu sig þá mjög vel. Þetta er mikill heiður fyrir þá og þeir eiga það fyllilega skilið að dæma hér,“ segir Þórir. Hann á þó ekki von á að fá mikið gefins hjá löndum sínum í dag.

„Ég veit að þeir eru heiðarlegir og munu dæma eftir bestu getu. Ég mun samt örugglega grípa aðeins í íslenskuna ef ég þarf eitthvað að tuða í þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×