Viðskipti innlent

Rennir stoðum undir sjávarútveg

Rúnar Jónsson Telur margt jákvætt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. mynd/íslandsbanki
Rúnar Jónsson Telur margt jákvætt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. mynd/íslandsbanki

Rúnar Jónsson, forstöðumaður sjávarútvegsteymis Íslandsbanka, segir að miðað við sjávarútvegskafla stefnuyfirlýsingar ríkistjórnarinnar virðist vera lögð áhersla á að gera greinina arðbærari og stuðla að meiri verðmætasköpun. Ljóst sé að byggt verði áfram á aflamarkskerfinu þannig að engar meiriháttar breytingar verði frá núverandi kerfi.

„Það er jákvætt að stefnt verði að því að gera sjávarútveginn að meira aðlaðandi vinnuumhverfi sem vonandi mun stuðla að ákveðinni nýliðun í greininni. Eins er það mikilvægt að greininni verði gert kleift að skila ásættanlegri arðsemi til eigenda til þess að laða að fjárfesta. Það má jafnframt draga þá ályktun að með því að leggja áherslu á auknar nýfjárfestingar og vöruþróun séu einnig meiri líkur á að íslenskur sjávarútvegur verði áfram í fremstu röð,“ segir Rúnar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að lög um sérstaka veiðigjaldið verði endurskoðuð og frekar horft til afkomu einstakra fyrirtækja í stað sjávarútvegsins í heild, eins og lagabókstafurinn kveður á um í dag. Rúnar segir að Íslandsbanki hafi lagt áherslu á að gæta verði sanngirni þegar kemur að álagningu sérstaks veiðigjalds og því telji bankinn þetta skref í rétta átt. „Þá telur bankinn það jákvætt að lagt sé upp með að vinna áfram með tillögu sáttanefndar, enda var búið að vinna þær tillögur með fjölda hagsmunaaðila innan greinarinnar. Við eigum hins vegar eftir að sjá hvernig endanlegar tillögur stjórnarflokkanna líta út og munum fara betur yfir þetta þegar að því kemur,“ segir Rúnar.- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×