Viðskipti innlent

Ósætti vegna nýs formanns lífeyrissjóðs

Verslunarmenn VR og atvinnurekendur skipa fjóra menn hvor í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, og skiptast á um að skipa formann stjórnarinnar í þrjú ár í senn.
Verslunarmenn VR og atvinnurekendur skipa fjóra menn hvor í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, og skiptast á um að skipa formann stjórnarinnar í þrjú ár í senn. Fréttablaðið/Stefán
Fráfarandi formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna er ósáttur við eftirmann sinn og segir það algerlega nýja stefnu að blanda pólitík í störf stjórnar sjóðsins eins og stjórnendur VR geri með skipan nýja formannsins.

Stjórn VR hefur ákveðið að skipa Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrverandi rektor á Bifröst, sem formann stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Bryndís var áður þingmaður Samfylkingarinnar, og verður fyrsta konan til að gegna stjórnarformennsku hjá lífeyrissjóðnum.

„Það er algerlega ný stefna að setja einhverja pólitík í þetta, við höfum ekki gert það hingað til,“ segir Helgi Magnússon, fráfarandi formaður stjórnarinnar, og verðandi varaformaður.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segist hissa á gagnrýni Helga og segir einhug hafa ríkt í stjórn VR um skipan Bryndísar og annarra stjórnarmanna í lífeyrissjóðnum.

VR skipar fjóra menn í stjórn lífeyrissjóðsins og atvinnurekendur fjóra. Atvinnurekendur hafa ráðið því síðustu þrjú ár hver leiðir stjórnina en næstu þrjú ár fær stjórn VR að velja stjórnarformann.

Stjórn VR hefur nú ákveðið að skipa tvo nýja menn í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og að Bryndís verði stjórnarformaður. Ólafía segir að formlega skipti stjórnin með sér verkum og því taki Bryndís ekki við fyrr en á næsta stjórnarfundi.

„Við erum auðvitað ekki ánægðir með þetta en við ráðum því ekki,“ segir Helgi. Hann segir of snemmt að spá til um hvort þessar breytingar muni hafa áhrif á starf stjórnarinnar eða lífeyrissjóðinn almennt.

„Við munum að sjálfsögðu reyna að vinna vel með nýjum formanni, ég hef persónulega alls ekkert á móti Bryndísi,“ segir Helgi. Hann bendir á að hingað til hafi stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verslunarmanna einnig verið stjórnarmenn í VR, sem Bryndís er ekki. Á því hefur verið gerð ein undantekning, þegar Ragnar Önundarson var fenginn til að stýra stjórninni.

Ólafía segir að bæði Bryndís og hinn nýi stjórnarmaðurinn, sem VR skipar hjá lífeyrissjóðnum, standi utan stjórnar VR. „Hugsunin hjá okkur er að vanda vel til verka og velja besta fagfólkið í stjórnina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×