Viðskipti innlent

Lög binda hendur Bankasýslu ríkisins

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Landsbankinn
Landsbankinn
Afskipti Bankasýslu ríkisins síðustu mánuði drógu úr skilvirkni bankaráðs Landsbankans, samkvæmt því sem fráfarandi formaður bankaráðsins hélt fram í ræðu sinni á nýafstöðnum aðalfundi Landsbankans.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, segist ekki átta sig á því til hvers sé verið að vísa. „Hjá fyrrum bankaráðsformanni kemur fram almenn gagnrýni sem ég get ekki svarað þar sem hann nefnir engin sérstök tilvik,“ segir hann.

Jón Gunnar bendir á að lög um hlutafélög og fjármálafyrirtæki setji skýr ábyrgðarskil milli hlutverka stjórna, framkvæmdastjóra og eigenda fyrirtækja um leið og þeim séu mörkuð ákveðin réttindi. „Og ég veit ekki til annars en að bæði Bankasýslan og Landsbankinn hafi farið að lögum í störfum sínum.“

Gunnar Helgi Hálfdanarson, fráfarandi formaður bankaráðs Landsbankans, sagði fráfarandi bankaráði hafa þótt sem Bankasýslan færi inn á valdsvið þess þegar líða tók á síðasta starfsár bankans. Varaði hann við því að mál fengju að þróast aftur „með gamalkunnum hætti“ þar sem vald og ábyrgð bankaráðsins yrðu smám saman viðskila. Ljóst væri að ríkið yrði líklega um langa framtíð stór eigandi í Landsbankanum.

„Í því sambandi er rétt að minna á það sem lagt var upp með við stofnun Bankasýslunnar og mótun eigendastefnunnar að þótt ríkið yrði stór eigandi ættu að gilda sömu reglur og sjónarmið og gilda um fjármálafyrirtæki í einkaeigu og þannig beri að virða stjórnkerfi bankans,“ segir í ræðu Gunnars Helga.

Jón Gunnar bendir hins vegar á að sérstök lög gildi um Bankasýslu ríkisins, ólíkt öðrum hluthöfum í fjármálafyrirtækjum. „Og okkur ber samkvæmt þeim að fara með eignarhluti ríkisins í samræmi við góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins. Þar á meðal er að gæta jafnræðis í samskiptum okkar við fjármálafyrirtæki sem við förum með eignarhlut í og tryggja að jafnræði sé á milli hluthafa. Við förum í einu og öllu eftir þessum lögum,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×