Fastir pennar

Athygli vakin á góðum verkum

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru veitt í áttunda sinn í gær. Tilgangurinn með veitingu þeirra hefur frá upphafi verið að vekja athygli á jákvæðu framlagi einstaklinga og samtaka til samfélags okkar. Slíkt starf fær oft ekki þá athygli sem það verðskuldar og fáir vita af því aðrir en þeir sem njóta þess beint, þótt það gagnist samfélaginu í heild.

Undanfarin ár hafa vissulega margir hlotið Samfélagsverðlaunin sem mega teljast þjóðþekktir fyrir störf sín en þeir eru líklega fleiri sem unnið hafa verk sín meira eða minna í kyrrþey og fyrst og fremst í þágu síns nærsamfélags.

Blaðið hefur viljað lyfta þessum góðu verkum, annars vegar með verðlaunaveitingunni sjálfri og hins vegar með umfjöllun um verðlaunahafana og störf þeirra. Verk þeirra eru ekki aðeins mikilvæg fyrir þá sem þeirra njóta, heldur eru þeir líka mikilvægar fyrirmyndir sem er full ástæða til að segja frá.

Lesendur Fréttablaðsins leika lykilhlutverk við val á verðlaunahöfum. Í byrjun árs er auglýst eftir tilnefningum til Samfélagsverðlaunanna og bárust að þessu sinni vel á fjórða hundrað ábendingar. Úr þeim hefur dómnefnd svo unnið og tilnefnt þrjá verðlaunahafa í fjórum flokkum, auk þess sem valinn hefur verið heiðursverðlaunahafi sem hlýtur viðurkenningu fyrir ævistarf. Tilnefningarnar voru kynntar í helgarblaði Fréttablaðsins.

Í ár hlaut Sigurlaug Hermannsdóttir verðlaunin í flokknum Hvunndagshetjan. Hún er félagsmálafrumkvöðull á Blönduósi, allt í öllu í íþróttastarfi, söfnunum fyrir tækjum handa heilbrigðisstofnunum og fleira félagsstarfi. Ásamt eiginmanni sínum Hlyni Tryggvasyni hefur hún boðið eldri borgurum á Blönduósi til árlegrar veizlu og haft er á orði í byggðarlaginu að boðið hjá Sigurlaugu og Hlyni jafngildi árshátíð fyrir gamla fólkið.

Í flokknum Til atlögu gegn fordómum var verkefnið Projekt Polska verðlaunað. Að því standa ungir Pólverjar sem vinna að eflingu félagsstarfs og bættum aðstæðum innflytjenda. Hópurinn telur að innflytjendur beri sjálfir nokkra ábyrgð á að bæta hag sinn. Þetta er mikilvægt starf í fjölmenningarsamfélagi, þar sem Pólverjar eru stærsti innflytjendahópurinn á Íslandi.

Margrét Pálmadóttir kórstjóri hlaut verðlaunin í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar. Hún hefur af miklum krafti byggt upp kórstarf og stuðlað að söngmennt stúlkna og kvenna. Margrét hefur verið listrænn stjórnandi Stúlknakórs Reykjavíkur frá stofnun árið 1994 og unnið ómetanlegt starf.

Heiðursverðlaunin hlaut Óli H. Þórðarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og formaður Umferðarráðs. Hann vann stóra sigra í umferðaröryggismálum, meðal annars með lögleiðingu bílbeltanotkunar og notkunar ökuljósa allan sólarhringinn. Báðar breytingar hafa án vafa bjargað mannslífum og fækkað slysum.

Loks hlaut Kaffistofa Samhjálpar aðalverðlaun Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins. Þar fær utangarðsfólk og aðstöðulausir um fimmtíu þúsund ókeypis máltíðir á ári. Þetta er gífurlega mikilvægt starf og óhætt að segja að það sé Kaffistofunni að þakka að enginn þarf að svelta í Reykjavík.

Verðlaunahöfunum og öðrum sem tilnefndir voru til Samfélagsverðlaunanna er óskað til hamingju. Störf þeirra skipta miklu máli, á mismunandi sviðum, og eru okkur öllum góð fyrirmynd.






×