Viðskipti innlent

Kjörin breytast þegar höft hverfa

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Greiningardeild Arion bendir á skort á áætlunum um niðurgreiðslu skulda ríkisins.
Greiningardeild Arion bendir á skort á áætlunum um niðurgreiðslu skulda ríkisins.
Fyrirséð er að vaxtakostnaður ríkisins aukist þegar og ef gjaldeyrishöftum verður aflétt í komandi framtíð. Því er að mati greiningardeildar Arion banka miður að ekki standi til hjá ríkinu að greiða niður útistandandi skuldir svo neinu nemi. Þetta kemur fram í umfjöllun greiningardeildarinnar í gær.

Vísað er til þess að skuldsetning ríkisins hafi aukist verulega í kjölfar hrunsins, farið úr 311 milljörðum króna í árslok 2007 í 1.500 milljarða, eða úr 24 prósentum af landsframleiðslu í 87 prósent.

Bent er á að rannsóknir bendi almennt til þess að skuldsetning ríkis yfir 90 prósentum af landsframleiðslu sé til þess fallin að draga úr hagvexti, meðal annars vegna þess að svo há skuldsetning kalli á niðurskurð eða aukna skattheimtu til að standa straum af þungri greiðslubyrðinni.

Hér hafi ríkissjóði tekist að fjármagna hallarekstur sinn á hagstæðum kjörum innanlands í skjóli hafta, en slík kjör verði ekki í boði þegar þeim verður lyft.

Bent er á að í stefnu ríkisins í lánamálum fyrir árin 2013 til 2016 sé stefnt að því að lækka hlutfall skulda ríkissjóðs úr 87 prósentum í 70 prósent í árslok 2016. „Hins vegar ef við rýnum í hvað liggur á bak við þær tölur er ljóst að skuldirnar lækka nánast eingöngu í gegnum hagvöxt og verðbólgu,“ segir í umfjöllun Arion banka. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×