Viðskipti innlent

Nýr fjármálastjóri yngir framkvæmdastjórn Össurar

Sveinn Sölvason var upp úr aldamótum í hópi bestu badmintonspilara landsins og vann alls fimm Íslandsmeistaratitla í greininni. Mynd/Vilhelm
Sveinn Sölvason var upp úr aldamótum í hópi bestu badmintonspilara landsins og vann alls fimm Íslandsmeistaratitla í greininni. Mynd/Vilhelm
Breytingar verða gerðar á yfirstjórn Össurar um næstu mánaðamót þegar Hjörleifur Pálsson yfirgefur félagið eftir tólf ára starf sem fjármálastjóri.

Við starfi hans tekur hinn 34 ára gamli Sveinn Sölvason, sem hefur starfað á fjármálasviði félagsins frá 2009. Markaðurinn ræddi við Svein í tilefni af nýja starfinu.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Össur er frábært fyrirtæki og hér vinnur mikið af góðu fólki. Hjörleifur er búinn að byggja upp mjög öfluga starfsemi í fjármáladeildinni þar sem enginn einn dregur vagninn svo ég tek við mjög góðu búi,“ segir Sveinn, sem starfaði áður í viðskiptaþróun hjá Marel og í fyrirtækjaráðgjöf hjá Kaupþingi, auk þess að vinna um tíma fyrir HSH-Nordbank og Goldman Sachs. Sveinn er með meistaragráðu í fjármálum og endurskoðun frá Copenhagen Business School.

„Ég er búinn að vera viðriðinn Össur í mörg ár. Ég byrjaði hjá Kaupþingi árið 2005 og fór fljótlega að vinna fyrir Össur þar í tengslum við kaupin á Royce Medical 2005 og Gibaud í Frakkland árið 2006. Ég vann þar að auki að fjármögnun félagsins og að hlutafjáraukningu árið 2009,“ segir Sveinn og heldur áfram: „Í gegnum þessi störf byggði ég upp ágætt samband við stjórnendateymið hjá Össuri og réð mig síðan til fyrirtækisins í lok árs 2009. Hér hef ég rekið deild á fjármálasviði sem sér um fjárstýringu og fjárfestatengsl og skoðar fyrirtækjakaup. Ég tek formlega við starfi fjármálastjóra um mánaðamótin.“

Upp úr aldamótum var Sveinn í hópi bestu badmintonspilara landsins. Varð hann Íslandsmeistari í einliðaleik karla árið 2003 og vann þar að auki tvo Íslandsmeistaratitla í tvíliðaleik karla og tvo til viðbótar í tvenndarleik.

Sveinn segir að bakgrunnur úr íþróttum geti komið að gagni í viðskiptalífinu. „Það að alast upp í þessu umhverfi kennir manni nauðsyn þess að vera agaður, sem nýtist á flestum sviðum. Þá nálgast maður hlutina oft með smá keppnisskapi sem getur verið jákvætt.“

Sveinn er giftur Birtu Björnsdóttir og á með henni tvö börn; Óttar Sveinsson og Herdísi Önnu Sveinsdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×