Viðskipti innlent

Hagvöxtur taki kipp á næsta ári

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá tekur hagvöxtur hér nokkurn kipp á næsta ári.
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá tekur hagvöxtur hér nokkurn kipp á næsta ári. Fréttablaðið/Anton
Gert er ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 1,9 prósent í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Spáin gerir jafnframt ráð fyrir aukningu hagvaxtar á næsta ári, verði „um það bil 2,8 prósent á ári frá og með 2014“.

Verðbólguhorfur fyrir árið 2013 eru sagðar stöðugar eftir að veiking krónunnar frá síðasta hausti hafi tekið að ganga til baka í nýliðnum febrúarmánuði. „Spáð er að neysluverð verði 4,2 prósentum hærra 2013 en 2012 en að verðlag 2014 hækki um 3,4 prósent.“ Bent er á að góður afgangur sé af utanríkisviðskiptum og að ferðaþjónusta sé í miklum vexti. „Gert er ráð fyrir því að lágt raungengi krónunnar styðji áfram við þessa þætti,“ segir í spánni.

Vöxtur einkaneyslu er talinn verða 2,5 prósent á þessu ári en um og yfir 3,0 prósentum á ári frá 2014. Fjárfesting er talin munu dragast saman um 2,3 prósent á þessu ári en aukast um 16,9 prósent á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×