Viðskipti innlent

ESB ásælist ekki orkuauðlindir

Þorgils Jónsson skrifar
Össur hitti Öttinger orkumálastjóra á fundi í gær þar sem hinn síðarnefndi ítrekaði að ESB ásældist ekki orkuauðlindir Íslands.
Össur hitti Öttinger orkumálastjóra á fundi í gær þar sem hinn síðarnefndi ítrekaði að ESB ásældist ekki orkuauðlindir Íslands.
Íslendingar munu halda óskertu eignarhaldi og yfirráðum yfir orkulindum sínum ef til ESB-aðildar kemur. Þetta sagði Günther Öttinger, orkumálastjóri ESB, á fundi með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í Brussel í gær.

„Þetta þykir mér mikilvægt að liggi skýrt fyrir,“ segir Össur í samtali við Fréttablaðið, „því að andstæðingar aðildar hafa margsinnis haldið því ranglega fram, meðal annars á Alþingi, að jákvæðar viðtökur ESB við aðildarumsókn Íslendinga séu vegna þess að þeir ásælist orkuauðlindir okkar. Nú er því í gadda slegið að það er enginn fótur fyrir því.“

Össur segir Öttinger hafa sagt ESB hvorki vilja né geta krafist nokkurra yfirráða í þessum málum þar sem slíkt samræmdist ekki sáttmála sambandsins.

Össur fundaði einnig með Stefan Füle stækkunarstjóra þar sem Füle sagði meðal annars að ESB hefði „fullan skilning á sérstöðu Íslands“ með tilliti til þess að viðhalda banni á innflutningi lifandi dýra ef til ESB-aðildar Íslands kæmi.

„Þetta slær kaldar fullyrðingar Evrópuandstæðinga um annað,“ bætir Össur við, en meðal annars sem þeir Füle ræddu var aukið samstarf Íslands og ESB um málefni norðurslóða, meðal annars stofnun þjónustumiðstöðvar hér á Íslandi vegna aukinna umsvifa og samgangna á Norðurslóðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×