Viðskipti innlent

Þorskstofninn mælist enn og aftur sterkur

Svavar Hávarðsson skrifar
Þorskkvótinn gæti verið um 220 þúsund tonn innan fárra ára. fréttablaðið/stefán
Þorskkvótinn gæti verið um 220 þúsund tonn innan fárra ára. fréttablaðið/stefán
Niðurstöður úr vorralli Hafrannsóknarstofnunar gefa vonir um að þorskkvótinn verði aukinn á næsta fiskveiðiári, samkvæmt mati LÍÚ. Stofnvísitala þorsks á Íslandsmiðum er með því hæsta sem mælst hefur undanfarin 28 ár.

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (vorrall) fór fram dagana 26. febrúar til 17. mars. Fimm skip tóku þátt í verkefninu.Fyrsta mat á 2012 árgangi þorsks bendir til að hann sé undir langtímameðaltali árganga frá 1955. Hann kemur í kjölfar meðalstórra árganga frá 2008, 2009 og 2011, en árgangurinn frá 2010 er slakur. Á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunarinnar kemur fram að meðalþyngd þorsksins eftir aldri hafi hækkað undanfarin ár og sé nú yfir meðaltali hjá flestum aldurshópum.

Mælingar á ýsu eru svipaðar og undanfarin ár. Stofnvísitala ýsu hækkaði verulega á árunum 2002-2006 en fór ört lækkandi næstu fjögur árin þar á eftir. Mælingin nú er svipuð því sem verið hefur í vorralli frá 2010.

Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að allir ýsuárgangar frá og með 2008 séu lélegir. Þá eru horfurnar jákvæðar með stofna eins og gullkarfa, ufsa og fleiri tegundir.

Lokamat og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×