Viðskipti innlent

Fjárhagur heimila batnar á milli ára

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í nýrri skýrslu Hagstofunnar um fjárhagsstöðu heimilanna á síðasta ári kemur í ljós að heimilum í fjárhagsvanda fækkaði í fyrsta sinn frá hruni. Fréttablaðið/Anton
Í nýrri skýrslu Hagstofunnar um fjárhagsstöðu heimilanna á síðasta ári kemur í ljós að heimilum í fjárhagsvanda fækkaði í fyrsta sinn frá hruni. Fréttablaðið/Anton
Heimilum sem auðvelt eiga með að ná endum saman fjölgaði um 4.700 milli áranna 2011 og 2012, samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Aukningin nemur 8,0 prósentum á milli ára. Árið 2012 er fyrsta árið eftir hrun þar sem fjölgar í þessum hópi.

Fram kemur í nýjasta hefti Hagtíðinda Hagstofunnar að einnig hafi fjölgað í hópi þeirra heimila sem mætt gátu óvæntum útgjöldum. Þá hafi vanskil húsnæðislána eða leigu staðið í stað í 10,1 prósenti, þriðja árið í röð.

Fram kemur að einstæðir foreldrar séu líklegri til að vera í fjárhagsvanda en aðrir hópar og að konur sem búi einar lendi síður í vanskilum en karlar sem búi einir. „Heimili þar sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga var 30 til 39 ár voru í mestum erfiðleikum. Því hærri sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga er á heimilinu því minni líkur eru á því að heimilið sé í fjárhagserfiðleikum,“ segir í Hagtíðindum.

Greining Íslandsbanka bendir á að breytingarnar tengist líkast til auknum kaupmætti ráðstöfunartekna heimila, en hann jókst um 5,3 prósent árið 2011 og aftur um 1,8 prósent í fyrra. „Þá hafa einnig áhrif þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að lækka skuldir heimilanna, en skuldir heimilanna sem hlutfall landsframleiðslu voru komnar í 109 prósent í ágúst í fyrra eftir að hafa farið í 132 prósent af landsframleiðslu undir lok árs 2008. Þetta, ásamt fleiri aðgerðum, hefur létt greiðslubyrði lána heimilanna og hjálpað þeim að ná endum saman,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

Lífskjararannsókn Hagstofunnar er hluti af samræmdri rannsókn Evrópusambandsins. Fram kemur að á síðasta ári hafi hér á landi verið 123.900 fjölskyldur og að meðaltali 2,4 einstaklingar í hverri þeirra. Í úrtaki Hagstofunnar í rannsókninni voru 4.018 heimili en svör fengust frá 3.091. Svarhlutfall var því 77 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×