Viðskipti innlent

Komandi samninga ber hæst

Um miðjan síðasta mánuð urðu mannaskipti í stóli framkvæmdastjóra hjá Samtökum atvinnulífsins þegar Þorsteinn Víglundsson tók við af Vilhjálmi Egilssyni. Mynd/SA
Um miðjan síðasta mánuð urðu mannaskipti í stóli framkvæmdastjóra hjá Samtökum atvinnulífsins þegar Þorsteinn Víglundsson tók við af Vilhjálmi Egilssyni. Mynd/SA
Nýr forystumaður kom inn fram á sjónarsviðið í atvinnulífinu þegar Þorsteinn Víglundsson tók við starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA) um miðjan síðasta mánuð. Hann tók við af Vilhjálmi Egilssyni, sem var ráðinn rektor Háskólans á Bifröst.

Þorsteinn hefur lengi verið í fararbroddi í viðskiptum en hóf starfsferilinn sem viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu árið 1995, eftir að hafa lokið námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann færði sig svo um set til Kaupþings þar sem hann stýrði fyrst greiningardeild bankans og varð svo forstöðumaður hjá eignastýringarsviði í Lúxemborg.

Árið 2002 settist Þorsteinn í forstjórastól BM Vallár, en Víglundur Þorsteinsson, faðir hans, var um árabil stjórnarformaður og aðaleigandi fyrirtækisins. Þar var Þorsteinn til ársins 2010 þegar hann gerðist framkvæmdastjóri SAMÁLs, Samtaka álframleiðenda á Íslandi.

Þorsteinn hefur einnig stundað stjórnunarnám, bæði við HÍ og á Spáni, og var varaformaður Samtaka iðnaðarins, eins aðildarfélags SA, frá 2007 til 2010.

Hann býr í Garðabæ með eiginkonu sinni og þremur dætrum þeirra.

Í samtali við Markaðinn segir Þorsteinn að fyrstu dagarnir í nýju starfi hafi verið skemmtilegir. „Mér líst vel á þetta. Þetta hafa verið annasamir dagar þar sem að mörgu er að hyggja þar sem hæst ber að sjálfsögðu undirbúning fyrir komandi kjarasamninga. Það er afar mikilvægt að þar náist að semja um skynsamlegar launabreytingar sem innstæða er fyrir á komandi árum, ólíkt því sem hefur viðgengist lengi. Það er mikilvægur þáttur í að auka hagvöxt og berjast gegn verðbólgu hér á landi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×