Fastir pennar

Hreint vatn er ekki sjálfsagt mál

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Við Íslendingar tökum hreinu drykkjarvatni gjarnan sem algjörlega sjálfsögðum hlut. Fáar þjóðir búa þó við önnur eins forréttindi og við í þeim efnum; að úr krönum í borgum og bæjum komi tandurhreint og ómeðhöndlað hágæðavatn. Víðast hvar er raunveruleikinn allt annar.

Við umgöngumst hins vegar ekki þessa auðlind okkar, hreina vatnið, af tilhlýðilegri virðingu og varúð. Í síðasta helgarblaði Fréttablaðsins var úttekt á ýmsum fyrirhuguðum framkvæmdum á jaðri vatnsverndarsvæðis Reykvíkinga. Á Hólmsheiði á að byggja fangelsi og hugmyndir eru um að færa innanlandsflugvöllinn þangað. Áform eru um að stækka og efla skíðasvæðið í Bláfjöllum, sem gæti fjölgað mjög ferðamönnum sem þar eiga leið um. Stórtækustu plönin eru um uppbyggingu ferðaþjónustu í Þríhnúkagíg, sem hundruð þúsunda gætu heimsótt á ári hverju.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og svokölluð framkvæmdastjórn um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu (FVH) hafa verulegar áhyggjur af þessum áformum og stórauknum ferðamannastraumi um svæði sem á að vera helgað vatnsvernd.

Guðmundur H. Einarsson, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs og formaður FVH, varaði í samtali við Fréttablaðið sterklega við sofandahætti í vatnsverndarmálum. Framkvæmdastjórnin telur nauðsynlegt að gera heildstæða samgönguáætlun um Bláfjallasvæðið áður en hægt sé að fallast á uppbyggingu þjónustu fyrir hundruð þúsunda ferðamanna. Bláfjallavegurinn standist engar öryggiskröfur, en olíumengunarslys vegna til dæmis rútu sem ylti út af veginum er talið einn helzti áhættuþátturinn sem ógnar vatnsbólum Reykvíkinga. „Ef það verður olíumengunarslys, og það þarf ekki að vera stórvægilegt, eru vatnsbólin farin á stundinni,“ segir Guðmundur.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gengur enn lengra og telur að jafnvel þótt vegurinn verði bættur verði hann alltaf áhættuþáttur vegna legu og veðurfars á svæðinu. Huga þurfi að samgöngumátanum og setja spurningarmerki við að allir aki á einkabílum upp í Bláfjöll til að njóta útivistar.

Samkvæmt svörum Vegagerðarinnar við fyrirspurnum Fréttablaðsins eru engar áætlanir um að byggja upp Bláfjallaveginn og óljóst er hvernig á að bæta aðgengi ferðamanna að Bláfjallasvæðinu og Þríhnúkagíg.

Þetta mál er eitt dæmið um ósamkvæmnina og hugsunarleysið sem einkennir gullgrafarahugsunarhátt þeirra sem vilja moka sem flestum ferðamönnum inn í landið sem allra fyrst. Betri nýting á skíðasvæðinu í Bláfjöllum er frábær hugmynd, sömuleiðis að opna undur Þríhnúkagígs fyrir ferðamönnum. En við getum ekki bara vaðið áfram án þess að huga að afkastagetu og öryggi samgöngumannvirkjanna, hvað þá öryggi neyzluvatns höfuðborgarinnar.

Eða hvað myndi það gera fyrir ímynd Íslands sem ferðamannalands ef mengunarslys yrði á Bláfjallasvæðinu sem þýddi að höfuðborgarbúar og gestir þeirra yrðu að kaupa vatn á flöskum?






×