Viðskipti innlent

Skrifaði glæpasögu eftir stórtap í hruninu

Freyr Bjarnason skrifar
Sverrir Berg Steinarsson gefur út sína fyrstu glæpasögu í næsta mánuði. Mynd/Valli
Sverrir Berg Steinarsson gefur út sína fyrstu glæpasögu í næsta mánuði. Mynd/Valli
„Ég er hættur öllum afskiptum af verslunarrekstri þannig að núna get ég einbeitt mér að nýjum hlutum," segir Sverrir Berg Steinarsson. Hann er fyrrverandi eigandi fyrirtækisins Árdegi sem rak á sínum tíma fjölda verslana á Íslandi, þar á meðal Next, BT, Sony Center og Skífuna, og átti hlut í dönsku raftækjakeðjunni Merlin.

Uppheimar gefa í næsta mánuði út fyrstu glæpasögu hans sem nefnist Drekinn. Hún tengist viðskiptum og er samtímasaga. „Það eru miklar spennusögur að gerast á hverjum degi í þessu umhverfi sem við lifum í og ég vildi nýta það í þessa sögu," segir Sverrir Berg, sem er viðskiptafræðingur að mennt. Drekinn fjallar að hluta til um olíuleitina á Drekasvæðinu og gerist bæði hér heima og erlendis.

Spurður hvort reynsla hans úr viðskiptalífinu hafi nýst við gerð bókarinnar segist hann vissulega búa að henni. Eftir að fyrirtæki hans Árdegi fór á hausinn ákvað hann venda kvæði sínu í kross. „Við vorum í verslunarrekstri en svo skall kreppan á og hrunið. Hluti af því sem ég er að gera með þessari útgáfu er að gera hluti sem mig hefur lengi langað til að gera en ekki haft tíma til," segir hann. „Þetta hefur í sjálfu sér blundað í mér mjög lengi. Ég ákvað að láta slag standa og prófa að sjá hvort ég gæti þetta."

Hann segir Drekann alls ekki vera uppgjör hans við hrunið. „Þetta er engin hrunbók. Mér finnst margt sem er að gerast í íslenskum samtíma vera til uppbyggingar. Ég vil frekar einbeita mér að svoleiðis hlutum."

Hvað tapaðirðu miklum peningum í hruninu? „Ég hef í sjálfu sér ekki mikinn áhuga á að tala um það. Fyrir mér er þetta hluti af gömlum tíma og ég dvel lítið við það í dag."

Sverrir Berg hefur alltaf lesið mikið af spennusögum og reyfurum. Bækur Árna Þórarinssonar hafa lengi verið í uppáhaldi hjá honum, auk verka Arnaldar Indriðasonar. Hann segist nú þegar vera byrjaður að skrifa nýja bók en ætlar fyrst að sjá hvernig viðbrögðin við Drekanum verða.

Hvað fannst vinum hans og ættingjum um að fyrrverandi stórlax í viðskiptalífinu væri byrjaður að semja glæpasögu? „Ég held að þetta hafi komið mörgum á óvart en það er margt líkt með ritstörfum og viðskiptum. Þú þarft að vera skapandi og með hugmyndaflug í hvoru tveggja."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×