Viðskipti innlent

Stærðfræðin vísaði á óverðtryggt lán fremur en verðtryggt

Sveinn og Björk Þau Björk og Sveinn færðu sig á síðasta ári úr tveggja herbergja íbúð í Vesturbænum í fjögurra herbergja íbúð í Hlíðunum.
Sveinn og Björk Þau Björk og Sveinn færðu sig á síðasta ári úr tveggja herbergja íbúð í Vesturbænum í fjögurra herbergja íbúð í Hlíðunum. Fréttablaðið/Vilhelm
Björk Ellertsdóttir og Sveinn Eiríkur Ármannsson stækkuðu nýverið við sig. Þau bjuggu áður í tveggja herbergja íbúð í gömlu Verkamannablokkunum í Vesturbænum en keyptu á síðasta ári fjögurra herbergja íbúð í Hlíðunum.

„Við höfðum verið með augun opin eftir íbúð í tvö ár og reyndum á sama tíma að safna fyrir innborgun. Á þessu tímabili gerðum við nokkur kauptilboð en þetta gekk ekki upp fyrr en við fundum þessa íbúð í Hlíðunum,“ segir Sveinn.

Björk segir að þau hafi tekið óverðtryggt fastvaxtalán hjá Arion fyrir íbúðakaupunum og bætir við að þau hafi hallast að óverðtryggðu láni eftir að hafa séð hve hratt verðtryggð lán geta hækkað þegar verðbólga fer af stað.

„Fyrir fram vildum við skoða þann möguleika að taka óverðtryggt lán. Við reiknuðum þetta svo fram og til baka og það sem réði að lokum úrslitum var einfaldlega stærðfræðin,“ segir Björk og bætir við: „Þetta er mjög stór fjárhagsleg ákvörðun og það er því mikilvægt að vera með fjárhagslegu hliðina á hreinu og ana ekki út í neitt.“

Sveinn segir að það hafi í raun komið sér vel að finna ekki íbúð fyrr en eftir næstum tveggja ár leit.

„Við fengum þarna góðan tíma til að spara. Það má líka benda á að það hjálpaði okkur að við höfum ekki rekið bíl, sem gerði okkur auðveldar fyrir en ella að leggja hluta af launum okkar til hliðar um hver mánaðamót.“

Björk bætir við að íbúðaleit geti verið stressandi enda nokkuð áreiti í ferlinu.

„Fasteignasalarnir eru oft að pressa á fólk að hækka tilboðin sín. Þeir hringdu stundum og sögðu að það hefði komið annað tilboð sem væri aðeins hærra en okkar. Við erum hins vegar ekkert viss um að það hafi endilega verið satt alltaf. Þannig að það er mikilvægt að halda sér á jörðinni, æsast ekki upp við þetta og fara að bjóða einhverja vitleysu. Frekar að bíða lengur ef það kemur til greina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×