Viðskipti innlent

Tap HR í fyrra um 120 milljónir króna

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Ari Kristinn jónsson
Ari Kristinn jónsson
Háskólinn í Reykjavík hefur tapað um 750 milljónum króna á þremur árum. Rektor skólans segir að jafnvægi muni nást í rekstri hans á þessu ári. Mikill niðurskurður vinni á móti lækkandi framlögum ríkis og hærri húsnæðiskostnaði.

Háskólinn í Reykjavík (HR) tapaði 120 milljónum króna á árinu 2012. Það er 111 milljónum krónum minna en árið áður. Að sögn Ara Kristins Jónssonar, rektors HR, gera áætlanir ráð fyrir að afkoma skólans verði jákvæð í ár. Hann segir enn fremur að ekki verði gengið frekar á eigið fé hans.

HR tapaði samtals 753 milljónum króna frá ársbyrjun 2010 til loka árs 2012 og því ljóst að rekstur skólans hefur verið þungur á síðustu árum. Framlög ríkisins til skólans voru tæpir tveir milljarðar króna árið 2011 og Ari Kristinn segir að þau hafi verið lítið eitt hærri í fyrra. Þau hafa minnkað mikið á undanförnum árum og á árinu 2012 einu saman voru þau meira en hálfum milljarði króna lægri að raungildi en á árinu 2008. Alls hefur uppsafnaður niðurskurður hins opinbera á framlögum til HR verið yfir milljarði króna á síðustu fjórum árum.

Skólinn innheimti þó rúman milljarð króna í skólagjöld á síðasta ári og náði í 564 milljónir króna í annað sjálfsaflafé. Ari Kristinn segir að tekjur skólans hafi líklega verið um fjórum prósentum hærri í fyrra en á árinu 2011. Rekstarkostnaður skólans hafi hins vegar lækkað mikið á undanförnum árum og það útskýri viðsnúning í rekstri hans. „Við höfum fækkað starfsfólki, fækkað námsbrautum og fjölgað nemendum í ákveðnum greinum. Það hefur skilað sér í auknum tekjum."

HR hefur átt eigið fé til að mæta tapi undanfarinna ára. Hratt gengur hins vegar á það fé og um síðustu áramót var það um 270 milljónir króna. Ari Kristinn segir að ekki verði gengið frekar á það eigið fé. Rekstraráætlun fyrir árið 2013 geri ráð fyrir að HR verði réttu megin við í lok þess og þar sem áætlanir síðustu ára hafi verið að standast sé líklegt að sú nýjasta geri það líka.

Hár húsnæðiskostnaður hefur verið HR erfiður á undanförnum árum. Ný skólabygging var tekin í gagnið í byrjun árs 2010. Hún var byggð af Eignarhaldsfélaginu Fasteign og leiga fyrir afnot af henni tengd við evru. HR fékk tímabundna lækkun á húsnæðiskostnaði en hann var samt sem áður stór hluti af rekstrarkostnaði skólans. Á árinu 2011 nam húsnæðiskostnaður til að mynda 770 milljónum króna.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Eignarhaldsfélagins Fasteignar lauk í byrjun þessa árs. Við það fluttist eignarhald á húsnæði HR yfir til Íslandsbanka. Ari Kristinn segir að húsnæðiskostnaður skólans hafi þó verið hærri í fyrra en á árinu 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×