Handbolti

Hannes: Þetta var svolítið Hollywood-moment

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hannes jón fór á kostum með liði sínu eisenach um helgina.fréttablaðið/valli
Hannes jón fór á kostum með liði sínu eisenach um helgina.fréttablaðið/valli
Hannes Jón Jónsson er kominn á fullt með Eisenach eftir krabbameinsmeðferð. Hann sneri aftur með miklum látum um helgina er hann skoraði þrjú síðustu mörk síns liðs og tryggði því mikilvægan sigur. Hann segir það hafa verið sætt.

„Þetta var mjög ljúft. Ég get ekki logið því," sagði Hannes Jón Jónsson en hann tryggði liði sínu, Eisenach, dramatískan sigur, 28-27, í þýsku B-deildinni um helgina. Sigurinn lyfti Eisenach upp í þriðja sæti deildarinnar.

Hannes Jón gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú síðustu mörk síns liðs. Sigurmarkið kom 39 sekúndum fyrir leikslok.

„Þetta var svolítið Hollywood-moment. Það er ekki spurning að þetta er sætt eftir það sem á undan er gengið. Tilfinningin er rosalega góð og gaman að vera kominn á fullt. Það var góð stemning eftir leikinn."

Afrek Hannesar er mikið því í október á síðasta ári fór hans í aðgerð vegna krabbameins. Hann greindist með illkynja æxli í þvagblöðrunni og þurfti að fjarlægja þrjú æxli. Hann er nýstiginn út á handboltavöllinn aftur en hann ætlaði sér alltaf að spila á nýjan leik í þessum mánuði.

„Þetta var fyrsti deildarleikurinn minn eftir veikindin. Ég hafði spilað tvo æfingaleiki á undan og einn bikarleik," sagði Hannes en hann segist vera í fínu ástandi þrátt fyrir allt.

„Ég fer í lyfjameðferð einu sinni í viku og svo hvíli ég frá æfingum þann dag. Ég fer svo aftur inn á spítala um næstu mánaðamót þar sem ég verð skoðaður á ný. Vonandi verð ég hreinn og fínn þá. Í þeirri heimsókn verður líka tekin ákvörðun um framhald lyfjagjafarinnar. Kannski breyta þeir henni í aðra hverju viku eða einu sinni í mánuði," segir Hannes og bætir við að hann sé ágætlega orkumikill þrátt fyrir lyfjagjöfina.

„Ég hugsa rosalega vel um mig og hef gjörbreytt mataræðinu mínu. Ég passa mig líka á því að sofa vel og hvílast vel. Ég hef farið í gegnum þetta án þess að finna mikið fyrir þessu. Ég hef verið mjög heppinn að því leyti að þetta hefur farið vel í mjög. Eflaust hjálpar líka til hvað ég hef passað vel upp á mig."

Síðast er Hannes fór í skoðun fannst ekkert. Hann er því bjartsýnn á að næsta skoðun leiði hið sama í ljós.

„Svona verður framhaldið hjá mér. Ég fer í skoðun á þriggja mánaða fresti og svo verður að koma í ljós hvernig lyfjagjöfin verður. Það er búið að hringla svolítið með hana," segir Hannes en hann er ánægður með að hafa náð því markmiði sínu að komast aftur út á völlinní febrúar.

„Það hefur allt gengið eftir hjá mér sem betur fer. Ég get ekki kvartað yfir neinu og óþarfi að vera með of mikla dramatík í kringum þetta. Vonandi verður þetta gott áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×