Lífið

Hrekktu fjölskyldu og vini í nafnaveislunni

Maríjon Nóadóttir og Reynald Hinriksson ásamt Karítas, dóttur sinni.
Maríjon Nóadóttir og Reynald Hinriksson ásamt Karítas, dóttur sinni. Mynd/Úr einkasafni
„Þar sem það er enginn prestur í nafnaveislum þurftum við að huga að því hvernig við vildum tilkynna nafnið. Hvorugt okkar er eitthvað hrifið af því að halda ræður – þannig að við ákváðum að tilkynna nafnið með kökunni,“ segir Maríjon Ósk Nóadóttir, en hún og sambýlismaður hennar, Reynald Hinriksson, buðu til nafnaveislu til heiðurs frumburðinum í lok september og ákváðu að hrekkja fjölskyldu sína og vini í veislunni.

„Okkur datt í hug að hafa grínköku, með einhverju öðru nafni en því sem við höfðum valið á dóttur okkar,“ útskýrir Maríjon.

Þau Maríjon og Reynald lögðust yfir nafnalista og völdu tvö nöfn sem þeim fannst fyndin og hallærisleg saman og varð nafnið Blíða Charlotte fyrir valinu.

„Við höfðum undirbúið nokkra veislugesti með því að segja þeim að eitt nafnið yrði íslenskt en hitt alþjóðlegt,“ heldur Maríjon áfram.

Því létu þau útbúa köku með nöfnunum Blíða Charlotte á og tilkynntu fjölskyldu og vinum í veislunni að stúlkan kæmi til með að bera það nafn.

Maríjon og Reynald lágu yfir nafnalistum og ákváðu að lokum að plata vini og vandamenn og segja að frumburðurinn fengi nafnið Blíða Charlotte Reynaldsdóttir. Mynd/Úr einkasafni
„Viðtökurnar voru mjög vandræðalegar. Fyrst sló þögn á hópinn og svo kallaði mamma fram í hópinn: Ha, Blíða? Svo klöppuðu allir vandræðalega og hrósuðu okkur fyrir valið.“ 

„Ég held að fæstir hafi meint það þegar þeir sögðu nafnið fallegt. Sem dæmi sagði einn fjölskyldumeðlimur að hann hefði hugsað að þetta væri mjög sérstakt nafn en vonaði að það myndi venjast með tímanum. Svo byrjuðum við að hlæja og fólk var frekar lengi að taka við sér, að uppgötva að þetta væri grín,“ bætir hún við og hlær.

Gestirnir önduðu þó léttar þegar í ljós kom að stúlkan myndi ekki bera nafnið Blíða Charlotte, heldur Karítas.

„Við heitum bæði svo erfiðum nöfnum að barnið okkar varð að fá hefðbundið nafn. Hún heitir Karítas Reynaldsdóttir,“ segir Maríjon að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.