
Ákæruatriðin eru þrjú: Í fyrsta lagi fimmtíu milljóna króna lán sem VÍS veitti Sigurði sjálfum í febrúar 2009 og var ítrekað framlengt og í öðru lagi tugmilljóna lán VÍS til Korks ehf., félags í eigu Lýðs og Ágústs bróður hans, sem var framlengt og hækkað sex sinnum.
Þessar tvær lánveitingar eru taldar varða við 104. grein hlutafélagalaga þar sem meðal annars er lagt bann við því að hlutafélag láni stjórnarmönnum sínum fé. Hámarksrefsing fyrir slíkt brot er tveggja ára fangelsi. Þessi lán eru hins vegar ekki talin varða við umboðssvikaákvæði hegningarlaga, meðal annars af því að lánin voru greidd upp og af þeim varð hvorki tjón né teljandi áhætta á því.
Þriðja atriðið í ákærunni er hins vegar ætluð umboðssvik þegar VÍS keypti 40 prósenta hlut í félaginu Reykjanesbyggð ehf. af Kristjáni Gunnari Ríkharðssyni, svila Sigurðar, fyrir 150 milljónir. Umboðssvik varða allt að tveggja ára fangelsi og sex árum ef sakir teljast mjög miklar.
Ákæran hafði ekki verið birt tvímenningunum í gærmorgun. Hún verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 24. október.
Sérstakur saksóknari réðst í húsleit hjá VÍS vegna rannsóknar á málefnum félagsins í maí 2011 og færði fjóra til yfirheyrslu.

Enn fremur voru fimm menn með réttarstöðu sakbornings vegna þessara mála; auk Lýðs og Sigurðar voru það þeir Erlendur Hjaltason, meðforstjóri Sigurðar hjá Existu, Bjarni Brynjólfsson, starfsmaður Existu og varamaður í stjórn VÍS, og Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS. Þeir þrír síðastnefndu hafa ekki verið ákærðir.
Þetta er önnur ákæran sem sérstakur saksóknari gefur út á hendur Lýði Guðmundssyni. Sú fyrri var vegna hlutafjáraukningar í Existu, þegar aðeins einn milljarður, fenginn að láni frá Lýsingu, var greiddur fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu í félaginu. Í maí var Lýður fundinn sekur og dæmdur til að greiða tveggja milljóna sekt, en saksóknari hafði farið fram á átján mánaða fangelsisdóm. Meðákærði, lögmaðurinn Bjarnfreður Ólafsson, var sýknaður.