Viðskipti innlent

Geiturnar þrjár búa til jógúrt, ís og osta

Berglind Sigmarsdóttir.
Berglind Sigmarsdóttir.
Geiturnar þrjár ehf. er nýtt sprotafyrirtæki í Vestmannaeyjum. Að fyrirtækinu standa Berglind Sigmarsdóttir, Ragnheiður Sveinþórsdóttir og Heather Philip. Saman ætla þær að þróa ís, jógúrt og osta til framleiðslu úr geitamjólk.

Berglind gaf út bókina Heilsuréttir fjölskyldunnar í fyrra og vinnur nú að framhaldi hennar. Þar mun hún skoða hvernig mataræði hefur áhrif á hegðun barna. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði í vinnslu bókarinnar.

„Ég ræddi við konu sem á dóttur með mjólkuróþol og hún sagði mér frá áhrifum þess að skipta kúamjólkinni út fyrir geitamjólk,“ segir Berglind og vísar til Heather Philip, eins stofnenda Geitanna þriggja, sem hefur flutt inn geitamjólkurduft í talsverðan tíma fyrir dóttur sína. „Duftið er einfaldlega þurrkuð geitamjólk. Engu er bætt í hana né tekið úr. Við ætlum að pakka duftinu í neytendapakkningar og þróa jógúrt, ís og osta til framleiðslu.“ Vörur framleiddar úr geitamjólk geta hentað mörgum þeim sem hafa mjólkuróþol eða -ofnæmi.

Berglind segir að með framleiðslunni vilji þær fyrst og fremst gefa fólki val. „Flestir í heiminum drekka geitamjólk, um það bil 65 prósent íbúa heimsins. Kúamjólkin er í raun bara meira áberandi á Vesturlöndunum.“

Geitaræktun á Íslandi er nokkur en ekki nógu mikil til að mjólkurframleiðsla standi undir sér. „Það væri gaman að skoða það síðar en sem stendur kaupum við duftið að utan. Duftið er vottað með stimpli sem kallast QualiGoat og staðfestir að velferð dýranna sé höfð að sjónarmiði sem og gæði framleiðslunnar.“

Heather Philip og Berglind Sigmarsdóttir stofnuðu fyrirtækið Geiturnar þrjár ásamt Ragnheiði Sveinþórsdóttur og þróa afurðir geitamjólkur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×