Viðskipti innlent

Icelandair tapar yfir 2 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi

Icelandair tapaði 18,3 milljónum dollara, eða rúmum 2 milljörðum kr., eftir skatta, á fyrsta ársfjórðungi ársins. Til samanburðar var 13,2 milljóna dollara tap á rekstrinum á sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar um afkomuna. Þar segir að afkoman hafi reynst betri en spár gerðu ráð fyrir.

Farþegatekjur félagsins  jukust um 24% á milli ára og heildartekjur jukust um 10%. Eiginfjárhlutfall 32% í lok mars.

„Afkoma Icelandair Group í fjórðungnum var betri en afkomuspár okkar gerðu ráð fyrir og áætlanir um áframhaldandi vöxt gengu eftir,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Framboð í millilandaflugi jókst um tæpan fjórðung á fyrstu þremur mánuðum ársins og farþegafjöldi jókst í takt við það og nam 18%. Fjöldi farþega jókst mest á N-Atlantshafsmarkaðinum eða um 40%.  Farþegum til Íslands fjölgaði einnig töluvert frá síðasta ári sem hefur haft jákvæð áhrif á alla ferðaþjónustu á Íslandi. Viðsnúningur hefur orðið í fraktstarfsemi félagsins. Þar hefur verið dregið markvisst úr leiguflugsverkefnum og áhersla aukin á áætlunarflug með frakt sem er að skila góðum árangri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×