„Ég byrjaði að vinna í plötunni fyrir fimm eða sex árum en mesta vinnan var unnin á endasprettinum eins og gerist oft,“ segir Ásgeir Óskarsson trommuleikari, sem gaf út sína fjórðu sólóplötu í sumar. Hann kemur fram á útgáfutónleikum í Hörpu í kvöld ásamt stórri hljómsveit.
Á meðal þeirra sem koma fram með Ásgeiri eru Andrea Gylfadóttir, Björn Jörundur Friðbjörnsson, Egill Ólafsson, Rúnar Þór og Björgvin Ploder.
Á plötunni eru eingöngu lög eftir Ásgeir sjálfan og útsetti hann jafnframt öll lögin. Höfundar textanna eru hins vegar ýmsir en meðal textahöfunda eru þeir Magnús Þór Sigmundsson og Ingólfur Steinsson. Upptökur fóru að mestu fram í heimastúdíói Ásgeirs en einnig að hluta í Hljóðsmiðjunni í Hveragerði.
Ásgeir, sem er líklega þekktastur fyrir það að vera trommuleikari Stuðmanna og Þursaflokksins, hefur einnig spilað inn á fjölda platna fyrir hina ýmsu listamenn og hefur verið einn ástsælasti trymbill landsins í fjölda ára. Miðasala á tónleikana fer fram á Midi.is
Stuðmaður fagnar plötuútgáfu
Gunnar Leó Pálsson skrifar

Mest lesið





Hvað er Labubu og hvers vegna eru allir að missa sig yfir því?
Tíska og hönnun


Gamli er (ekki) alveg með'etta
Gagnrýni


