Handbolti

Lærisveinar Guðmundar fengu skell í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
SG Flensburg-Handewitt tryggði sér sæti í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í handbolta í kvöld með því að vinna öruggan fjögurra marka sigur á Rhein-Neckar Löwen, 24-20, í slag tveggja Íslendingaliða. Ólafur Gústafsson og félagar bætast þar sem í hóp með HSV Hamburg sem komst áfram í bikarnum í gær.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen töpuðu aðeins einum leik fyrir HM-frí en byrja ekki vel eftir rúmlega mánaðarfrí. Rhein-Neckar Löwen var einu marki yfir í hálfleik, 12-11, en leikur liðsins hrundi í seinni hálfleik.

Flensburg-liðið skoraði sex af sjö fyrstu mörkum seinni hálfleiksins og var komið fimm mörkum yfir, 19-14, eftir rúmar ellefu mínútur. Flensburg náði síðan mest sjö marka forystu, 23-16, þegar átta mínútur voru til leikslok.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk úr fimm skotum fyrir Rhein-Neckar Löwen í þessum leik og Stefán Rafn Sigurmannsson nýtti eitt af þremur skotum sínum. Bæði mörk Alexanders komu á fyrstu 6:18 mínútum leiksins en Löwen var með 4-2 forystu eftir seinna mark hans.

Ólafur Gústafsson klikkaði á báðum skotum sínum í leiknum en hann fékk líka einu sinni tveggja mínútna brottrekstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×