Handbolti

HSV Hamburg fyrsta liðið í undanúrslit bikarsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Lindberg.
Hans Lindberg. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
HSV Hamburg tryggði sér sæti í undanúrslitum þýska bikarsins í handbolta með því að vinna tveggja marka heimasigur á TSV Hannover-Burgdorf, 33-31, en þetta var jafnframt fyrsti leikurinn í þýska handboltanum eftir HM-frí.

Íslenski Daninn Hans Lindberg er markahæsti leikmaður HSV Hamburg á tímabilinu en hann skoraði bara eitt mark í kvöld og það kom úr vítakasti átta mínútum fyrir leikslok.

Króatísku línumaðurinn Igor Vori var markahæstur hjá HSV Hamburg með níu mörk, Pólverjinn Marcin Lijewski skoraði átta mörk og þýska stórskyttan Pascal Hens var með sjö mörk.

HSV Hamburg var 18-17 yfir í hálfleik og alltaf skrefinu á undan. Hannover-Burgdorf-liðið minnkaði muninn í eitt mark í blálokin en tókst ekki að jafna metin.

Hinir þrír leikir átta liða úrslita bikarkeppninnar fara fram í þessari viku. Þar mætast GWD Minden-THW Kiel, ThSV Eisenach-Melsungen og SG Flensburg-Handewitt-Rhein-Neckar Löwen en síðastnefndi leikurinn fer fram á morgun.

Tveir leikjanna eru Íslendingaslagir (Minden-Kiel, Flensburg-Löwen) og þá þjálfar Aðalsteinn Eyjólfsson lið Eisenach sem spilar í b-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×