Viðskipti innlent

Flokkarnir vilja skoða „danskt“ húsnæðiskerfi

Tillögur ASÍ um að taka upp húsnæðiskerfi að fyrirmynd þess danska hafa fengið ágætan hljómgrunn hjá stjórnmálaflokkunum.
Tillögur ASÍ um að taka upp húsnæðiskerfi að fyrirmynd þess danska hafa fengið ágætan hljómgrunn hjá stjórnmálaflokkunum. Fréttablaðið/Valli
Framtíð húsnæðislána á Íslandi var til umræðu á ráðstefnu sem Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Íbúðalánasjóður (ÍLS) og Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) stóðu fyrir á Hilton Nordica í gær.

Á ráðstefnunni kynnti Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hugmyndir sem sambandið hefur sett fram um að taka upp húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd. Þá flutti Karsten Beltoft, framkvæmdastjóri Realkreditforeningen í Danmörku, erindi um danska kerfið og mælti með því.

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri ÍLS, sagði ekki nóg að innleiða nýtt kerfi heldur þyrfti að auka aga í húsnæðismálum. Hann tók þó fram að í framtíðarsýn ÍLS væri litið til norrænna fyrirmynda.

Þá kynnti Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur SFF, sjónarmið samtakanna á fundinum. Yngvi kynnti hugmyndir að reglum um veitingu húsnæðislána en slík starfsemi hafði að hans mati reynst áhættusamari en talið var fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Þá sagði hann vert að skoða danska húsnæðislánakerfið sem og það þýska.

Loks fjallaði Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði, um vandamál og valkosti á fasteignalánamarkaði. Benti hann sérstaklega á svokölluð „aðeins-vaxta“-lán sem valkost sem beri að skoða nánar. Þau væru líklega heppilegri en Íslandslánin, löng, verðtryggð jafngreiðslulán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×