Lífið

Semja söngva um landsliðsmenn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tólfan styður við bakið á Gylfa og félögum.
Tólfan styður við bakið á Gylfa og félögum. MYND/EVA BJÖRK
„Tólfan hefur stækkað mjög mikið undanfarið vegna góðs gengis bæði karla- og kvennalandsliðs okkar,“ segir Friðgeir Bergsteinsson, einn forsprakki Tólfunnar, stuðningsmannafélags karla- og kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á góða möguleika á að komast á heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu næsta sumar. Því eru næstu tveir leikir liðsins, gegn Kýpur í kvöld og Norðmönnum á þriðjudag, mikilvægir liðinu.

Meðlimir Tólfunnar hittast fyrir alla landsleiki til að komast í rétta gírinn. „Heimir Hallgrímsson aðstoðarþjálfari hittir okkur alltaf á Ölver tveimur tímum fyrir leik, tilkynnir byrjunarliðið og fer yfir skipulag leiksins.“

Stuðningsmannasveitin telur um 150 meðlimi af báðum kynjum, hefur samið ýmsa söngva um leikmenn landsliðsins og lætur ávallt vel í sér heyra. „Við syngjum mikið og öskrum þannig að okkur verður aldrei kalt þótt kalt sé í veðri,“ útskýrir Friðgeir.

Tólfan hyggur á hópferð til Noregs á þriðjudag til að styðja landsliðið í leiknum móti Norðmönnum. „Þetta eru mikilvægir leikir sem eftir eru og við hlökkum mikið til að styðja við bakið á liðinu,“ segir Friðgeir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.