Viðskipti innlent

365 miðlar orðið fjarskiptafyrirtæki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ari Edwald forstjóri 365.
Ari Edwald forstjóri 365.
365 miðlar sækir nú inn á íslenskan fjarskiptamarkað, samkvæmt niðurstöðum í 4G útboði sem lauk í gær. Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að fyrirtækið hafi átt hæsta boð, eða 100 milljónir króna, í tíðnisvið A sem er 791-801/832-842 MHz.

Póst- og fjarskiptastofnun segir að með þessu tilboði hafi fyrirtækið skuldbundið sig til að byggja upp næstu kynslóðar farnet sem ná skal til 99,5% íbúa á hverju skilgreindu landssvæði fyrir sig. Farnetið verður því eitt stærsta fjarskiptanet landsins. Uppbyggingu þess á að vera lokið fyrir lok árs 2016 og skal það þá bjóða upp á 10 Mb/s gagnaflutningshraða. Gagnaflutningshraðinn verður síðan aukinn og á að vera orðinn 30 Mb/s í lok árs 2020. Fjórir aðilar tóku þátt í uppboðinu, þ.e. 365 miðlar ehf., Fjarskipti hf., Nova ehf. og Síminn hf.

Síminn tryggði sér stærsta tíðnibandið, eða 2x15 MHz á 1800 MHz, í uppboðinu. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir að þetta þýði að viðskiptavinir Símans geti nýtt 4G þegar líður á árið.

Nova og Fjarskipti, rekstrarfélag Símans, tryggðu sér líka rekstrarleyfi fyrir 4G netþjónustu og því er ljóst að í framtíðinni verða fjögur fyrirtæki starfandi á Fjarskiptamarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×