Handbolti

Aron gaf átta fleiri stoðsendingar en næsti maður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Mynd/Vilhelm
Íslenski landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson var sá leikmaður sem gaf flestar stoðsendingar á HM í handbolta á Spáni og það þrátt fyrir að spila aðeins sex leiki og detta úr leik með íslenska landsliðinu í átta liða úrslitum keppninnar.

Aron gaf alls 35 stoðsendingar í 6 leikjum eða 5,8 að meðaltali í leik. Hann gaf átta stoðsendingar fleiri en næsti maður sem var Króatinn Domagoj Duvnjak (27 stoðsendingar) en í þriðja sætinu var síðan Slóveninn Jure Dolenec með 26 stoðsendingar.

Það voru í raun aðeins fjórir leikmenn á mótinu sem náðu að koma að fleiri mörkum en Aron Pálmarsson en þá er átti við þau mörk sem leikmenn annaðhvort skoruðu markið sjálfir eða gáfu stoðsendinguna.

Aron átti þátt í 59 mörkum því auk því að gefa 35 stoðsendingar þá skoraði hann 24 mörk. Þeir sem sköpuðu fleiri mörk á HM voru þeir Domagoj Duvnjak frá Króatíu (67, 40 mörk og 27 stoðsendingar), Kiril Lazarov frá Makedóníu (66, 44 mörk og 22 stoðsendingar) og Jure Dolenec frá Slóveníu (65, 39 mörk og 26 stoðsendingar).

Guðjón Valur Sigurðsson varð í tíunda sæti á þessum lista en hann kom að 51 marki (41 mark og 10 stoðsendingar). Guðjón Valur var auk þess sjöundi markahæsti leikmaður keppninnar en þar var Þórir Ólafsson í 32. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×