Viðskipti innlent

Gamla Reykjavíkurapótek verður glæsihótel

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Austurstræti 16 mun hýsa hótel og veitingastað.
Austurstræti 16 mun hýsa hótel og veitingastað. mynd/valli
Dótturfélag Regins hf. og Keahótel ehf. hafa undirritað leigusamning um fasteignina Austurstræti 16, sem oft er kennd við Reykjavíkurapótek. Fyrirhugað er að í húsinu verði innréttað og rekið glæsilegt hótel ásamt veitingastað sem hæfa muni yfirbragði og sögu hússins.

Reginn hf., sem festi nýverið kaup á fasteigninni, mun sjá um og stýra framkvæmdum á húsinu. Gert er ráð fyrir að rekstur geti hafist í lok næsta sumar.

„Við erum mjög ánægð  með að hafa náð samningum við Keahótel því um er að ræða rekstraaðila með mikla reynslu og sérþekkingu á þessu sviði,“ er haft eftir Helga S. Gunnarssyni, forstjóra Regins hf., í tilkynningu.

„Sömuleiðis eru aðilar sammála um að varðveita og hafa að leiðarljósi við hönnun og breytingu innanhúss þann fágaða og glæsilega stíl sem húsið býður upp á.“

Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keahótela, segir að um sé að ræða mikilvægt skref fyrir  rekstur Keahótela að hafa náð leigusamningi um Austurstræti 16.

„Keahótel er nú þegar með hótel rekstur í samliggjandi eignum þ.e. Hótel Borg og með því er komin rekstrarleg  samfella milli allra húsanna í lengjunni frá Hótel Borg  til og með Austurstræti 16. Þetta gefur okkur mikla möguleika í framtíðinni að tengja rekstur þessar hótela saman og samnýta ýmsa rekstraþætti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×