Handbolti

Alfreð lenti í bjórsturtu í miðju sjónvarpsviðtali

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason lofaði að hefna sín fyrir þetta á næstu æfingu hjá Kiel.
Alfreð Gíslason lofaði að hefna sín fyrir þetta á næstu æfingu hjá Kiel. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel tryggðu sér þýska meistaratitilinn annað árið í röð í kvöld með því að vinna öruggan og sannfærandi 31-25 sigur á Rhein-Neckar Löwen. Alfreð lenti í bjórsturtu í miðju sjónvarpsviðtali í sigurgleðinni eftir leikinn.

„Þetta var mjög erfitt tímabil. Ég skil varla hvernig okkur tókst að klára þetta með nokkra leiki eftir. Ég er rosalega stoltur af liðinu," sagði Alfreð en komst ekki lengra því einn leikmanna hans notaði þá tækifærið og sturtaði bjór yfir þjálfara sinn. Alfreð lofaði að hefna sín á næstu æfingu.

„Það var strax ljóst að við gátum aldrei gert jafnvel og í fyrra því það eru svo mörg góð lið í þessari deild. Flensburg átti mjög gott tímabil sem og Löwen og Hamburg. Berlin byrjaði illa í október en átti annars gott tímabil. Liðin voru hinsvegar að taka stig af hverju öðru á þessu tímabili," sagði Alfreð.

„Við héldum okkar striki og hættum aldrei. Það bjuggust kannski einhverjir við því í desember að það kæmu nýir meistarar en við héldum áfram og nýttum okkur það að hin liðin misstigu sig," sagði Alfreð.

„Það er erfitt og kannski svolítið sorglegt að horfa eftir Omeyer og Narcisse en svona er lífið. Það þarf alltaf að vera endurnýjun og menn geta ekki spilað til sextugt," sagði Alfreð en franski markvörðurinn Thierry Omeyer og franska skyttan Daniel Narcisse yfirgefa liðið í sumar.

Kiel er orðið tvöfaldur meistari en getur náð þrennunni með því að vinna Meistaradeildina um næstu mánaðarmót.

„Það væri gaman en ég er þegar mjög stoltur af því að við höfum komist alla leið í undanúrslitin í titilvörninni. Það er magnað að taka þátt í lokaúrslitunum í Köln en okkar bíður þar mjög erfiður mótherji í HSV Hamburg. Við verðum að eiga góðan leik til þess að komast í úrslitaleikinn," sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×