Viðskipti innlent

Markaðurinn vill lífrænan kjúkling

Freyr Bjarnason skrifar
Arndís Thorarensen kaupir frosna lífræna kjúklinga frá Danmörku.
Arndís Thorarensen kaupir frosna lífræna kjúklinga frá Danmörku. fréttablaðið/vilhelm
„Markaðurinn hefur áhuga á að kaupa betri vörur hérna heima. Framleiðendur þurfa bara að fara að hlusta á það,“ segir Arndís Thorarensen, framkvæmdastjóri Lifandi markaðar.

Sala á lífrænum kjúklingi úti í heimi hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, þar á meðal í Skandinavíu. Hér á landi eru slíkir kjúklingar ekki framleiddir og hefur Arndís því þurft að panta þá frosna frá Danmörku fyrir verslun sína. „Það hefur verið tekið ágætlega í þetta. Viðskiptavinir okkar sækjast eftir svona vörum. Ef við myndum auglýsa almennilega er ég viss um að það væri enn meiri áhugi,“ segir Arndís.

Hún segir að færri fuglar séu á hvern fermetra í lífrænu ræktuninni en hinni hefðbundu, eða tíu á hvern fermetra í búinu þar sem hún kaupir frosna kjúklinginn á móti nítján sem kjúklingabú hafa leyfi fyrir hér heima.

Auk þess eru dönsku kjúklingarnir á lífrænu fóðri, fá að fara út undir bert loft og eru ekki í gluggalausum rýmum. Þeir mega ekki heldur þyngjast meira en 35 grömm á dag. „Þetta eru eðlilegri aðstæður fyrir dýrin og þarna er bæði verið að hugsa um heilnæmi fæðunnar og meðferð dýranna.“

Að sögn Arndísar er meira kjötbragð af lífrænum kjúklingum heldur en venjulegum og mjölbragðið er minna. „Við segjum oft að ódýr matur sé dýrasta blekkingin í dag. Ef þú kaupir lífræna vöru ertu að kaupa vottun um gæði. Fólk er orðið miklu upplýstara um að það er verið að bæta efnum í mat sem það kærir sig ekki um.“

Hún viðurkennir að lífræni kjúklingurinn sem hún selur sé dýrari en hinn hefðbundni. Þannig kostar 1.200 gramma lífrænn kjúklingur 1.449 krónur á tilboði hjá henni. „Það væri miklu betra ef þetta væri framleitt á Íslandi,“ segir hún og hvetur framleiðendur til að stíga skref í átt að lífrænni framleiðslu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×