Viðskipti innlent

Ætti að spara eins og heimilin

Jóhannes Stefánsson skrifar
Grafík/Thanos
„Það er mjög mikilvægt að forgangsraða í ríkisfjármálum. Við eigum að setja í það sem skiptir mestu máli og geyma þau verkefni sem mega bíða.“ Þetta segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Ríkisreikningur kom út í vikunni. Niðurstaðan er sú að 36 milljarða króna halli var á ríkissjóði árið 2012, sem var 10 milljarða króna lakari útkoma en ráðgert var við gerð fjáraukalaga.

Heildarskuldir ríkissjóðs eru því 1.890 milljarðar króna eða um það bil 5.870.000 krónur á hvern Íslending, ungan sem aldinn.

Frosti Sigurjónsson
Frosti segir að ekki sé hægt að ýta vandanum á undan sér lengur.

„Það eru til dæmis einhverjar fjárfestingar sem mega bíða sem hvorki eru gjaldeyrisskapandi né -sparandi. Þá verðum við að bíða með þær og leggja áherslu á mikilvægustu innviðina og þau verkefni sem kosta ekki mikinn gjaldeyri en eru atvinnuskapandi eða skapa útflutningsmöguleika eða einhvers konar góða þjónustu fyrir fólkið í landinu. Eins og til dæmis heilbrigðiskerfið,“ segir hann.

Frosti segir að stjórnmálamenn ættu að forgangsraða í ríkisfjármálum líkt og heimilin þurfa að gera.

„Þú myndir fyrst passa upp á það að halda heilbrigði fjölskyldunnar og gera það sem þarf til þess. Fyrst þarf að borða hollan mat en bíða með utanlandsferðir og greiða niður skuldir. Ekki kaupa fellihýsi og safna skuldahala.“

Einna mikilvægast sé þó að greiða niður skuldir. „Það er dýrt að skulda og það á ekki að taka meiri lán. Svona þurfum við líka að hugsa í ríkisrekstrinum,“ segir Frosti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×